Fótbolti

Þjálfararnir fengu svör en enginn „festi sér sæti“ fyrir HM

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Hjörtur Hermannsson spilaði hægri bakvörð í nótt.
Hjörtur Hermannsson spilaði hægri bakvörð í nótt. vísir/getty
Íslenska landsliðið í fótbolta tapaði, 3-1, fyrir Perú í vináttuleik í New Jersey í nótt en staðan var 1-1 í hálfleik.

Heimir Hallgrímsson gerði sjö breytingar á byrjunarliðinu fyrir leikinn eftir tapið á móti Mexíkó en leikurinn í nótt var sá síðasti sem liðið spilar áður en Heimir og aðstoðarmaður hans, Helgi Kolviðsson, velja HM-hópinn.

„Við eigum eftir að skoða þennan leik aftur og bara báða leikina. Það eru enn þá tveir mánuðir þangað til við veljum hópinn og við sáum nokkra hluti sem við vorum ánægðir með og aðra þar sem við gátum gert betur,“ sagði Helgi Kolviðsson við Fótbolti.net eftir leikinn í nótt.

Í Bandaríkjunum voru menn að spila sem standa á brúninni í landsliðinu og reyndu að sanna sig fyrir þjálfurunum í von um að komast með á HM í Rússlandi.

„Það var enginn sem festi sér sæti núna og enginn sem datt úr einhverju sæti. Við fengum ákveðið tempó eins og við vildum og við vildum sjá ákveðna menn í ákveðnum stöðum,“ sagði Helgi.

„Við fengum fullt af svörum við okkar spurningum og nú ætlum við að vinna úr því,“ sagði Helgi Kolviðsson.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×