Fótbolti

Diego Costa: Þetta er ástæðan fyrir því að þið getið ekki gagnrýnt Messi

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Diego Costa í leiknum í gær.
Diego Costa í leiknum í gær. Vísir/Getty
Diego Costa kom Spánverjum í gang í gærkvöldi í 6-1 stórsgri á argentínska landsliðið en mótherjar Íslands á HM fengu slæman skell aðeins 78 dögum fyrir HM í Rússlandi. Diego Costa skaut á Argentínumenn eftir leikinn og þá aðallega fyrir meðferð þeirra á Lionel Messi.

Lionel Messi gat ekki spilað með argentínska landsliðinu í leiknum vegna meiðsla en hann hefur jafnan fengið á sig harða gagnrýni í heimalandinu vegna þess að argenínska landsliðið spilar ekki eins vel og Barcelona.

Diego Costa taldi ástæðu til þess að taka upp hanskann fyrir Lionel Messi eftir leikinn í gærkvöldi.

„Argentínumenn gagnrýna Messi mikið en sjáið bara hvað gerðist í kvöld. Þá sáuð þið hvernig þetta fer þegar Messi er ekki með. Þetta er allt annað lið án Messi,“ sagði Diego Costa eftir leik.

Lionel Messi er markahæsti landsliðsmaður Argentínu frá upphafi með 61 mark í 123 landsleikjum. Diego Maradona náði „aðeins“ að skora 34 mörk fyrir argentínska landsliðið.





„Þú gagnrýnir ekki leikmann eins og Messi. Fólk ætti að þakka honum fyrir. Þegar Messi spilar ekki þá breytist Argentína í allt annað lið. Við myndum spila allt öðru vísi á móti liðinu ef Messi væri með,“ sagði Diego Costa.

Argentínumenn komust á HM þökk sé þrennu frá Lionel Messi í lokaleiknum, leik sem liðið varð að vinna. Messi skoraði 7 mörk í 10 leikjum í undankeppninni en framherjarnir  Gonzalo Higuain, Sergio Aguero, Lucas Pratto, Lucas Alario, Mauro Icardi og Dario Benedetto skoruðu bara þrjú mörk samanlagt.

Messi missti af átta leikjum í undankeppninni og argentínska landsliðið náði aðeins í sjö stig í þeim. Liðið fékk aftur á moti 21 stig í þeim tíu leikjum sem hann spilaði eða 75 prósent stiga sinna í undankeppninni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×