Íslenski boltinn

Valskonur með fullt hús eftir sigur á Stjörnunni

Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar
Úr leik Vals og Stjörnunnar í Pepsi deildinni síðasta sumar
Úr leik Vals og Stjörnunnar í Pepsi deildinni síðasta sumar vísir/eyþór
Valur er með fullt hús siga eftir þrjá leiki í A-deild Lengjubikars kvenna eftir sigur á Stjörnunni í Egilshöll í kvöld.

Valskonur urðu einum leikmanni færri þegar um rúmt korter var eftir af leiknum en það kom ekki að sök því Eygló Þrastardóttir skoraði sigurmarkið og eina mark leiksins aðeins mínútu eftir að rauða spjaldið fór á loft. Landsliðskonan Hallbera Guðný Gísladóttir fékk rauða spjaldið fyrir að fara með takkana í andlit leikmanns Stjörnunnar, en það var óviljaverk.

Eyjakonur sigruðu FH 1-3 fyrr í dag. Adrienne Jordan skoraði tvö mörk í fyrri hálfleik sem tryggðu ÍBV forystu í leikhléi.

Clara Sigurðardóttir bætti við þriðja marki ÍBV á 81. mínútu. Marjani Hing-Glover klóraði í bakkann fyrir FH á 86. mínútu en það dugði ekki til, ÍBV fór með 1-3 sigur.

Staðan er þá þannig í A-deildinni að Valur er á toppnum með 9 stig, Breiðablik í öðru með sjö og Stjarnan er í þriðja sæti með 3. ÍBV er einnig með þrjú stig í fjórða sætinu. Þór/KA er með eitt stig og FH er á botninum án stiga. Stjarnan og ÍBV eiga þó leik til góða á hin liðin.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×