Fótbolti

Svona lítur HM-búningur Íslands út

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Íslenski landsliðsbúningurinn.
Íslenski landsliðsbúningurinn. KSÍ
Knattspyrnusamband Íslands og Errea Sport kynntu í dag nýjan búning íslenska knattspyrnulandsliðsins en það var gert í dag með viðhöfn í höfuðstöðvum Knattspyrnusambands Íslands í Laugardalnum.

Það þarf ekki að koma neinum á óvart að blái liturinn er allsráðandi í nýjum búningi íslenska landsliðsins.

Nú er rauði liturinn í ermunum og það er engin rönd niður eftir treyjunni. Myndband með nýju treyjunni er hér fyrir neðan.



„Við erum búin að bíða eftir þessu ansi lengi,“ sagði Guðni Bergsson, formaður KSÍ, í ræðu á Melvellinum eins og svæðið heitir undir aðalstúkunni á Laugardalsvellinum.

„Ég er viss um að þessi búningur muni hreyfa við okkur og skapa mikla umræðu,“ sagði Guðni um það sem Errea kynnti sem næsta sameiningartákn íslensku þjóðarinnar.

Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, fékk afhenta fyrstu treyjuna. 

Búningurinn sem íslenska liðið spilaði í á EM í Frakklandi 2016 og hefur haldið áfram að spila í síðan þá var með einni áberandi hvítri og rauðri rönd í gegnum merki KSÍ og niður allan búninginn að framan. 

Íslenska liðið er á leiðinni í æfingaferð til Bandaríkjanna þar sem liðið mætir bæði Mexíkó og Perú í vináttulandsleikjum í New Jersey og San Francicso. 

Í ferðinni verður einnig unnið allskonar kynningarefni á íslenska landsliðinu fyrir komandi sumar. Nýr búningur þurfti því að vera klár fyrir Bandaríkjaferðina og hann var kynntur með viðhöfn og á beinni á Vísi í dag. 

Nýi búningurinn.KSÍ
Ísland er á leiðinni á sitt fyrsta heimsmeistaramót í Rússlandi í sumar þar sem fyrsti leikurinn verður á móti Lionel Messi og félögum í argentínska landsliðinu 16. júní næskomandi. Íslensku strákarnir mæta einnig Nígeríu og Króatíu í riðlinum og vonandi verða leikirnir fleiri en þrír. 

Ísland setur heimsmet í fyrsta leik sem fámennasta þjóð sem hefur átt lið í úrslitakeppnni HM í fótbolta. Ísland bætir þar met Trínidad og Tóbagó. Þar búa 1,3 milljónir manna en aðeins tæplega 340 þúsund búa á Íslandi. 

Hér fyrir neðan má sjá hvernig íslenski landsliðsbúningurinn hefur þróast frá fyrsta landsleik Íslands sem var á móti Danmörku á Melavellinumn 17. júlí 1946.



 


Tengdar fréttir

HM-búningur Íslands fer í sölu í dag

Nýr búningur íslenska karlalandsliðsins í fótbolta er nú orðinn opinber og það má búast við mikilli eftirspurn allstaðar að úr heiminum.




Fleiri fréttir

Sjá meira
×