Skoðun

Yfirlýsing frá fjölskyldu Ragnars Þórs Marinóssonar

Fjölskylda Ragnars Þórs skrifar
Vegna þeirrar umræðu sem skapast hefur um mál Ragnars Þórs Marinóssonar og Ragnars Þórs Péturssonar viljum við, fjölskylda Ragnars Þórs Marinóssonar koma eftirfarandi á framfæri:

Í fjögur ár höfum við, fjölskylda Ragnars Þórs Marinóssonar - Ragga, staðið þögul við bakið á syni okkar og bróður. Við höfum fylgst með umræðum og skrifum Ragnars Þórs Péturssonar, án þess að hafa lagt orð í belg. Af virðingu við Ragga höfðum við fram að þessu ekki blandað okkur í neitt tal um sekt eða sakleysi kennarans Ragnars Þórs. Við höfðum ekki einu sinni gefið uppi að neitt okkar þekki þolandann eða hina hlið málsins. Raggi hefur alltaf verið mjög skýr í afstöðu sinni, hann kom máli sínu á framfæri við yfirvöld en vildi að öðru leyti ekki láta bendla sig við málið eða vera nafngreindur. Hverjum þeim sem kynnir sér málið má vera það ljóst, af þeim tímasetningum sem um ræðir og af viðbrögðum kennarans, Ragnars Þórs Péturssonar.

Þegar #metoo byltingin hófst hér á landi sem annars staðar skrifaði Magnús Guðmundsson, fyrrum forstöðumaður í Holtinu, Facebook pistil sem nokkurs konar uppgjör við sinn þátt í þeirri atburðarás sem leiddi til þess að umræða um Ragnar Þór kennara komu upp á yfirborðið. Pistill Magnúsar og það hvernig þolendum var tekið opnum örmum varð Ragga okkar hvatning til að stíga loksins fram og segja sína sögu. Við, fjölskylda hans, studdum þá ákvörðun og hvöttum hann áfram. Kvíði blundaði samt sem áður í okkur öllum en um leið feginleiki yfir því að loks fengju a.m.k. báðar hliðar að heyrast og rangfærslur kennarans yrðu að einhverju leyti leiðréttar. Haft skal í huga að umræddur kennari hefur lengi vel verið með pistla eða blogg á miðlum landsins og farið mikinn. Er hann með tengingu inn á net kennara, facebook síður og lokaða samskiptahópa enda hefur hann starfað innan skólakerfisins um langa hríð. Þá hefur Ragnar verið kennari , auk þess sem hann hefur beitt áhrifum sínum í bloggi sínu. Öllum sínum tengingum hefur hann beitt til þess eins að varpa rýrð á alla þá sem hafa hreyft einhverju í þessu máli, okkur fjölskylduna og Ragga okkar.

Það má öllum vera ljóst að það er ekki auðvelt að stíga fram með einhverja sögu um óeðlileg samskipti kennara og barns á opinberum vettvangi. Það sem hins vegar gerðist er það að vörn kennarans fór fram á opnum vettvangi þar sem hann gat beitt sér í skrifum sínum. Hér skal haft í huga að öll skrif kennarans hafa snúist um það að hann hafi verið að fást við jafningja sinn, en ekki brothættan dreng sem lenti í klóm hans við kennslu úti á landi. Það eitt, að kennarinn sem átti að vera fyrirmynd og trúnaðarmaður rauf þann trúnað með þeim hætti sem hann ekki vill gangast við nú, er atriði sem hefði átt að vera umfjöllunarefni. Hins vegar hefur sú umræða farið fyrir ofan garð og neðan og tekið á sig ýmsar myndir. Ekki óraði okkur fjölskylduna fyrir því að við tækju aðrar eins deilur og ásakanir og raunin hefur orðið. Raggi hefur ekki bara verið ásakaður um lygar heldur einnig verið bendlaður við samsæriskenningar um valdabaráttu innan Kennarasambandsins. Talinn vera peð í tafli mótframbjóðenda Ragnars Þórs. Eins og það væri á einhvern hátt rökrétt að fullorðinn þolandi mannsins, sem hefur náð sér vel á strik í lífinu, stígi fram undir nafni með afar persónulega og erfiða sögu til að þjóna hagsmunum fólks sem hann kann engin deili á.

Í frásögn sinni segir Raggi ekki bara frá því ofbeldi sem hann varð fyrir af hendi Ragnars Þórs kennara, heldur segir frá öðrum tímabilum í lífi sínu að eigin frumkvæði og sem notuð hafa verið gegn honum. Saga Ragga er hans eigin, hann steig fram að eigin frumkvæði og það eina sem vakti fyrir honum var að leiðrétta þær rangfærslur sem einhliða umfjöllun um mál hans hefur hlotið síðustu árin. Hann, og við öll, vonuðumst til að með sögu hans minnkuðu líkurnar á að kennarinn fengi áframhaldandi gagnrýnislaust aðgengi að börnum, hvað þá að hann yrði leiðtogi og talsmaður allrar kennarastéttarinnar. Í heil fjögur ár hefur kennarinn nýtt þá stöðu sína að vera eini nafngreindi aðilinn í málinu. Vitandi það að þolandinn gæti kosið að stíga fram með sína sögu fyrr eða síðar hefur hann eflaust litið svo á að sókn væri besta vörnin. Hann er vel máli farinn og hefur skapað sér vettvang með pistlaskrifum og þátttöku í almennri umræðu, bæði um þetta mál og önnur sem snúa að menntun og aðbúnaði barna. Hann hafði tækifæri til að móta skoðanir almennings á Ragga, sem enginn vissi þá hver var, og gat lýst atvikum og atburðarás eftir eigin hentisemi án þess að nokkur hreyfði mótbárum þrátt fyrir rangfærslur. Hann hafði svigrúm til að byggja upp ímynd sína og safna að sér fylgjendum. Hann fékk fjögurra ára ráðrúm til að búa til skýringar og trúverðuga sögu og hann var tilbúinn í slaginn þegar Raggi steig á endanum fram.

Í fimm vikur vissi kennarinn að frásögn Ragga væri á leið í birtingu. Fréttafólk 365 tók viðtöl við okkur fjölskylduna um þetta mál, því við fórum fram á það. Þau létu okkur vita að fréttin yrði aldrei birt fyrr en búið væri að ræða við Ragnar Þór Pétursson sjálfan, því þau sjálf væru hlutlaus í þessu máli og réttast væri að allir fengu að segja sína hlið. Fréttafólkið sagðist vilja vinna þetta vel og að erfiðlega gengi að hitta á Ragnar Þór, að hann væri búin að ákveða að hitta þau nokkrum sinnum en hætti svo við. Þannig tókst honum að fresta birtingu frásagnar þolanda síns fram yfir kosningar til formannsembættis í Kennarasambandinu.

Það var árið 2013 sem röð tilviljana leiddi til þess að málið komst upp innan fjölskyldunnar og ein systra Ragga veitti Magnúsi, yfirmanni sínum, þær upplýsingar sem hún hafði um málið eftir að hún uppgötvaði að gerandinn vann hjá sama skóla og hún sjálf. Kennarinn var sendur í leyfi og hófst hann þegar handa við pistlaskrif og áðurnefnda sókn í málinu eins og það sneri að almenningi. Hann sóttist eftir sjónvarpsviðtali að sögn RÚV, sem honum var veitt og þar vantaði töluvert upp á sannleikann svo Raggi flaug suður í þeim tilgangi að leggja fram kæru. Lögreglan útskýrði að þetta væri hitamál í þjóðfélaginu og mælti með því að hann myndi bíða í einhvern tíma. Raggi þáði þær ráðleggingar og lagði kæru sína fram nokkru seinna, þann 7. janúar 2014, þegar málið hafði „kólnað“. Raggi kaus að segja aðeins frá kláminu í skýrslu hjá lögreglu, því það mundi hann best. Með tímanum hefur meira rifjast upp þó hann treysti sér ekki að segja alþjóð frá því. Hann vissi frá upphafi að málið væri fyrnt og að ekki kæmi til rannsóknar eða ákæru. Hann vildi samt sem áður að mál hans væri til á skrá ef ef aðrir myndu stíga fram seinna meir. Raggi yfirgaf lögreglustöðina með þá vitneskju að Ragnar Þór Pétursson fengi í kjölfarið bréf um að hann hefði lagt fram kæru á hendur honum. Kennarinn hefur haldið því fram að lögreglurannsókn hafi farið fram að hans eigin frumkvæði en hið rétta er að hann fór fram á rannsókn á því hver hefði borið hann sökum og í hverju þær fælust. Skiljanlega vildi hann komast að því við hvern hann ætti að etja, það gerir alla málsvörn skilvirkari fyrir dómstóli götunnar.

Eftir að Raggi lagði kæruna fram tók við erfið bið hjá okkur fjölskyldunni þar sem við bjuggumst við að Ragnar Þór myndi blogga um málið eins og hann hafði lofað í bloggskrifum sínum í desember 2013. Hann stóð ekki við það og bloggaði ekki um málið fyrr en í október 2017, um það bil þremur og hálfu ári seinna. Ástæðan fyrir bloggskrifum nú var fyrrnefnd stöðufærsla Magnúsar. Nokkrum klukkustundum eftir að Magnús hafði birt pistilinn kom blogg frá Ragnari Þór. Hann skrifar um Ragga sem ógæfumann sem beri að vorkenna, sem er fjarri sannleikanum. Raggi gat ekki setið undir þessu og fékk loksins það hugrekki sem við vissum alltaf að hann byggi yfir. Hann vildi fá að stíga fram og segja sína hlið á þessu máli, enda erfitt ofan á annað að sitja undir rangfærslum frá gerandanum.

Fjöldi fólks telur að málið hafi verið rannsakað eða jafnvel að kennarinn hafi verið sýknaður eða sakleysi hans sannað. Ekkert af þessu er rétt. Lögreglan rannsakaði málið aldrei til hlítar þar sem það var fyrirsjáanlega fyrnt. Þar sem það fór aldrei fyrir dómstóla er ekki um neina sýknu eða sektardóm að ræða. Eina sem eftir situr er að ekki hefur verið sannað að kennarinn hafi brotið á barni. Slík brot er enda erfitt að sanna þegar þau gerast í einrúmi, hvað þá áratugum síðar. Stuðningsfólk kennarans hefur gjarnan í frammi frasann „saklaus uns sekt er sönnuð”. Við viljum að sama skapi fara fram á þá lágmarkskurteisi að sama gildi um Ragga. Að hann sé ekki ásakaður um lygar eða þátttöku í hvers konar samsæri á meðan ekkert hefur komið fram til að styðja þær fullyrðingar. Einnig viljum við árétta að „saklaus uns sekt er sönnuð” er orðasamband sem fyrst og fremst hefur gildi í réttarfarslegu samhengi. Fólk er vissulega sekt um misgjörðir sínar hvort sem þær hafa verið sannaðar eður ei. Hér er líka hollt að hafa í huga að þetta mál snertir ekki bara Ragga, heldur aðgengi manns, óheft og án athugasemda að börnum, enda æðsti trúnaðarmaður stéttarinnar sem við treystum fyrir velferð barna okkar. Þá er vert að víkja að því að hann hefur verið sérlegur álitsgjafi í spjaldtölvuvæðingu barnaskóla og komið þar fram og flutt fyrirlestra víða.

Ragnar Þór hefur gripið til ýmiss konar rökstuðnings í sínu máli sem ekki stenst skoðun:

• Málið var rannsakað

- Nei, lögreglan rannsakaði málið aldrei svo okkur sé kunnugt, aðeins fór fram skýrslugjöf Ragga

• Hann fór sjálfur fram á rannsókn málsins

- Hann fór fram á rannsókn á því hver hefði ásakað hann um hvað

• Málið var látið niður falla

- Hið rétta er að það var fyrnt að lögum, því fór ekki fram ítarleg rannsókn eða gat komið til formlegrar ákæru

• Kennarar verða reglulega fyrir upplognum sökum, nánar tiltekið fimmti hver kennari

- Hér vitum við ekki hvaða tölfræði eða gögn búa að baki þessari fullyrðingu, en teljum víst að ekki sé algengt að fullorðið fólk leggi fram kæru á hendur fyrrum kennurum sínum vegna alvarlegra brota sem áttu sér stað löngu áður. Flestir sem saklausir eru eiga þar fátt að óttast.

• Ekkert barn var nokkurn tímann eitt heima hjá honum

- Við vitum um tvo aðra einstaklinga sem muna glögglega eftir því að hafa verið einir heima hjá kennaranum. Auk þess hafa nokkrir ungir menn, sem eru á sama aldri og Raggi, sagt okkur frá því að þeir hafi verið nokkrir saman heima hjá Ragnari Þór Péturssyni.

• Börn eiga að njóta vafans

- Nema þegar hans eigin hagsmunir vega þyngra, þá er jafnvel réttlætanlegt að leggja trúverðugleika eigin stéttar að veði. Öll málsvörn hans hér varðar samskipti eins og gerandi og fórnarlamb hafi verið jafnokar. Raggi var barn þegar atvik átti sér stað.

Raggi, sonur okkar og bróðir hefur í þessu máli komið til dyranna eins og hann er klæddur. Hann hefur upplýst um þær staðreyndir málsins sem aldrei áður hafa komið fram og hann verðskuldar í það minnsta að njóta vafans. Hann hefur engra hagsmuna að gæta annarra en að fylgja eigin réttlætiskennd. Í engu hefur verið neinu fram haldið gegn kennaranum Ragnari Þór Péturssyni neinu sem ekki hefur átt sér stað. Gerandi og fórnarlamb hans eru einir til frásagnar um það hversu það gekk fram, en fyrir liggur, hvað sem síðar verður í ljós leitt, að blygðunarsemisbrot átti sér stað, rof kennara á trúnaði við barn. Með óheftum skrifum sínum undir nafninu Maurildi, hefur gerandi hér ausið ásökunum á marga saklausa í vörn sinni gagnvart atviki sem hann vill ekki horfast í augu við. Til marks um það hefur kennarinn rofið trúnaði við bróður Ragga, sem hingað til hefur ekki verið í þessari umræðu. Honum er í engu varnað, skeytir ekkert um það hvern hann dregur í svað sitt.

Hér er það svo á sá heggur er hlífa skyldi, enda brást kennarinn trúnaði sínum við barn.

Tálknafirði, 11. desember 2017

Marinó Bjarnason

Freyja Magnúsdóttir

Þórey Guðný Marinósdóttir

Davíð Halldór Marinósson

Sæunn Ingibjörg Marinósdóttir

Árný Hekla Marinósdóttir

Kristrún Helga Marinósdóttir

Kristinn Hilmar Marinósson

Freymar Gauti Marinósson

Sigríður Etna Marinósdóttir


Tengdar fréttir

Ragnar Þór birtir trúnaðarbréf frá 2014

Ragnar Þór Pétursson, formaður Kennarasambands Íslands, þvertekur fyrir að hafa nokkurs staðar haldið fram að ásakanir 34 ára Tálknfirðings á hendur honum hafi verið að undirlagi Guðríðar Arnardóttur, formanns Félags framhaldsskólakennara

Guðríður sakar Ragnar Þór um dylgjur og lygar

Ragnar talar um að hann hafi verið hrottalega heiðarlegur, já það er líklega satt því kannski er óheiðarleikinn einmitt hrottalegur heiðarleiki, segir Guðríður Arnardóttir.




Skoðun

Skoðun

Börnin okkar

Halla Karen Kristjánsdóttir,Anna Sigríður Guðnadóttir,Valdimar Birgisson skrifar

Sjá meira


×