Fótbolti

Heimir: Fékk leikgreiningu Freys þremur mínútum eftir dráttinn

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Heimir Hallgrímsson í salnum í Moskvu í dag, ásamt Guðna Bergssyni og Klöru Bjartmarz.
Heimir Hallgrímsson í salnum í Moskvu í dag, ásamt Guðna Bergssyni og Klöru Bjartmarz. Vísir/Getty
Heimir Hallgrímsson var gestur í Akraborginni á X-inu síðdegis en þá var nýbúið að draga í riðla fyrir HM í Rússlandi.

Ísland lenti í riðli með Argentínu, Króatíu og Nígeríu og var Heimir ánægður með niðurstöðuna. Ekki síst með að fá að mæta Argentínu í fyrsta leiknum í Moskvu.

„Það er ákveðin rómantík fólgin í því að fá Argentínu í fyrsta leik. Það er leikur sem býður mann velkominn á HM,“ sagði Heimir í viðtali við Hjört Hjartarson.

Ísland var nokkuð heppið með leikstaði. Moskva er nokkuð langt í burtu frá bækistöðvum Íslands við Svartahafið en hinir tveir leikstaðrinir - Volgograd og Rostov-on-Don eru nálægt.

„Það er líka gaman að vera á þessum leikvöllum. Þetta eru allt saman stórir vellir og allir í sama tímabelti. Ég held að Íslendingar geti vel farið að flykkjast til Rússlands og verið svolítið lengi í Rússlandi.“

Hann segir að hann hafi fyrirfram helst viljað fá annað hvort Argentínu eða Brasilíu en helst viljað sleppa við Króatíu - sem Ísland hefur mætt í undankeppnum síðustu tveggja stórmóta.

„Ísland og Króatía eru eins og hjón sem eru alltaf að skilja en enda svo alltaf saman aftur,“ sagði hann í léttum dúr.

„En þú velur þér ekki riðil og þetta er það sem við fengum. Við sönnuðum fyrir okkur síðasta sumar að við getum unnið Króatíu og það er jákvætt.“

Freyr Alexandersson, þjálfari íslenska kvennalandsliðsins, er einn af leikgreinendum íslenska karlaliðsins. Fyrirfram var ákveðið að Freyr myndi fá fyrsta andstæðing Íslands á HM. Það reyndist vera Argentína.

„Þremur mínútum eftir dráttinn var ég búinn að fá skýrsluna - að dekka leikmann númer tíu. Þar með var starfi hans lokið og þarf hann ekki að koma til Rússlands,“ sagði Heimir og hló.

Landsliðsþjálfarinn sagði einnig að næstu klukkutímar myndu skipta sköpum því þá yrði reynt að semja um vináttuleiki í aðdraganda lokakeppninnar í Rússlandi.

„Samningaviðræður fara fram uppi á hóteli þegar við komum þangað. Við ætlum að skoða hvað er í boði en vonandi fáum við góða leiki við lið sem henta undirbúningi okkar fyrir andstæðingi okkar á HM.“


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×