Fótbolti

Messi skorinn niður af stalli sínum í heimalandinu

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Lionel Messi.
Lionel Messi. Vísir/Getty
Lionel Messi er einn af dáðustu sonum Argentínu og í margra augum einn allra besti knattspyrnumaður sögunnar.

Það er ekkert skrýtið að menn í Buenos Aires, höfðuborg Argentínu, hafi sett upp glæsilega bronstyttu af honum en það vekur hinsvegar furðu að hún fái ekki að vera í friði.

Bronstyttan af Lionel Messi, sem var vígð í júní 2016, hefur tvisvar verið fórnarlamb skemmdarvarga.

Nú síðast skáru þeir styttuna niður með því að saga í sundur fætur Messi og skilja aðalhluta styttunnar eftir liggjandi á jörðinni eins og sjá má hér fyrir neðan.





Lögreglan veit ekki hver sé ástæðan fyrir þessum skemmdarverkum enda ætti Messi að vera elskaður og dáður í heimalandi sínu.

Hann hefur hinsvegar verið gagnrýndur fyrir frammistöðu sína með landsliðinu þrátt fyrir að hann sé orðinn markahæsti landsliðsmaður Argentínu frá upphafi. Messi hefur unnið fjölda titla á ferlinum en alla nema einn (Ólympíugull 2008) með liði Barcelona.

Styttan hans Messi er á Paseo de la Gloria torginu þar sem einnig má finna styttur af tenniskonunni Gabrielu Sabatini og körfuboltamanninum Manuel Ginobili.

Messi ákvað að hætta að spila með landsliðinu eftir harða gagnrýndi eftir Suður-Ameríkukeppnina sumarið 2016. Hann snéri hinsvegar aftur í landsliðið vegna ástar sinnar á þjóð sinni eins og Messi komst sjálfur að orði.  

Messi verður í aðalhlutverki á HM í Rússlandi næsta sumar og fyrsti leikur Argentínu er einmitt á móti Íslandi 16. júní.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×