Fótbolti

Prófaðu að draga í riðla fyrir HM 2018: Verða strákarnir ánægðir með þig?

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Aron Einar yrði ekki ánægður með alla þessa riðla.
Aron Einar yrði ekki ánægður með alla þessa riðla. vísir/getty
Perú varð í nótt síðasta liðið til að tryggja sér sæti á HM 2018 í fótbolta sem fram fer í Rússlandi og er því ljóst hvaða 32 þjóðir taka þátt í 21. heimsmeistaramótinu sem hefst í júní á næsta ári.

Styrkleikalistarnir eru klárir en Ísland verður í þriðja styrkleikaflokki ásamt hinum tveimur Norðurlandaþjóðunum; Svíþjóð og Danmörku, en dregið verður í riðla 1. desember í Rússlandi.

Ísland getur aðeins verið með einni annarri Evrópuþjóð í riðli þannig að fari svo að Íslandi fái til dæmis Þýskaland úr efsta styrkleikaflokki geta strákarnir okkar ekki fengið Evrópuþjóð úr styrkleikaflokkum tvö og fjögur.



Líklega væri best að dragast í A-riðil með gestgjöfum Rússlands sem eru sjálfkrafa í efsta styrkleikaflokki sem heimaþjóðin en Rússarnir eru langslakastir af þeim liðum sem eru í efsta flokki. Fýsilegir kostir í öðrum styrkleikaflokki eru lið eins og Perú og Sviss og í þeim fjórða myndi enginn slá hendi á móti því að mæta Sádi-Arabíu eða Panama.

En svo geta strákarnir okkar verið alveg einstaklega óheppnir og dregist í riðil með Brasilíu, Spáni og Nígeríu en allt kemur þetta í ljós 1. desember þegar að dregið verður í riðla fyrir heimsmeistaramótið.

Þangað til getur þú, lesandi góður, leikið þér að draga í riðla og sjá alla mögulega og ómögulega kosti sem eru í boði fyrir strákana okkar. Eina sem þú þarft að gera er að smella hér og ýta á „simulate draw“. Góða skemmtun.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×