Handbolti

Aron: Ég átti við persónuleg vandamál að stríða

Henry Birgir Gunnarsson skrifar
Aron fagnar í leik með Veszprém.
Aron fagnar í leik með Veszprém. vísir/getty
Aron Pálmarsson segir að ekki sé allt satt og rétt sem hafi komið frá ungverska félaginu Veszprém varðandi viðskilnað hans við félagið.

Aron var sagður hafa neitað að mæta á æfingu hjá félagið. Hann hafi síðan sent sms um að hann væri hættur og farinn til Íslands. Í kjölfarið varð fjandinn laus og Veszprém hótaði því að fara í mál við Aron sem hefði getað leitt til þess að hann yrði í tveggja ára banni.

„Veszprém segir að ég hafi sent eitt sms-skeyti þar sem ég hafi sagst vera hættur. Þetta er alveg glórulaust. Það sem gerðist er að ég fór út og hitti Veszprém þegar ég mætti í læknisskoðun. Ég átti þá gott spjall við þjálfarann og sagði honum að ég ætti við ákveðin persónuleg vandamál að stríða sem ég þyrfti að takast á við,“ segir Aron í samtali við Morgunblaðið í dag.

„Félagið vissi á þessum tímapunkti hvernig málum háttaði hjá mér. Þjálfarinn bað mig eftir þennan fund að segja sér hvað ég ætlaði að gera. Ég sendi honum sms-skeyti deginum eftir þar sem ég lét hann vita að ég ætlaði ekki að mæta á þessa fyrstu æfingu. Seinni partinn þennan dag er ég svo bara rekinn opinberlega frá félaginu. Ég fékk enga viðvörun heldur las ég bara um þetta í fjölmiðlum. Ég fékk algjört sjokk þegar ég sá þetta og þessi viðbrögð þeirra komu mér algjörlega í opna skjöldu og ég varð reiður.“

Aron mun að öllu óbreyttu spila sinn fyrsta leik fyrir Barcelona um komandi helgi.


Tengdar fréttir

Aron: Draumar rætast

Barcelona kynnti Aron Pálmarsson formlega til leiks á blaðamannafundi í dag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×