Handbolti

Viktor Gísli líka frá­bær í Fantasy

Sindri Sverrisson skrifar
Viktor Gísli Hallgrímsson er á leið í sannkallaðan stórleik í kvöld gegn Ungverjum.
Viktor Gísli Hallgrímsson er á leið í sannkallaðan stórleik í kvöld gegn Ungverjum. EPA/Johan Nilsson

Landsliðsmarkvörðurinn Viktor Gísli Hallgrímsson stendur í ströngu á EM í handbolta en hann er líka að gera frábæra hluti í draumadeildarleik ensku úrvalsdeildarinnar í fótbolta.

„Hann er betri en þú, alla vega eins og sakir standa,“ sagði Sindri Kamban léttur við félaga sinn og fantasy-sérfræðinginn Albert Guðmundsson, í nýjasta þætti Fantasýn, þegar talið barst að Viktori Gísla.

Hægt er að hlusta á þáttinn hér að neðan og umræðan um lið Viktors Gísla hefst eftir 57:34 mínútur.

Viktor Gísli er með liðið El Tigre og er í 66. sæti yfir alla Íslendinga sem eiga lið í fantasy-leiknum. Hann virðist vera að standa sig best af strákunum okkar í íslenska landsliðinu og er í hópi 20.000 bestu í öllum heiminum þegar kemur að leiknum, til viðbótar við að vera í hópi betri handboltamarkvarða heims eins og fólk veit.

„Ert þú ekki með íslenskt vegabréf?“

„Hann er á rönni núna með landsliðinu. Hvort ætli hann sé meira spenntur fyrir því að komast í topp 10.000 í Fantasy eða vinna EM í handbolta?“ spurði Sindri.

„Klárlega Fantasy. Hann tekur fótbolta fram yfir handbolta. Það hlýtur að vera,“ sagði Albert og velti fyrir sér hvort væri vinsælla, draumadeildarleikurinn eða handbolti.

„Ert þú ekki með íslenskt vegabréf? Hvað er í gangi?“ sagði Sindri léttmóðgaður fyrir hönd handboltaþjóðarinnar.

Varðandi lið Viktors Gísla í síðustu umferð, sem hann hefur kannski haft minni tíma en ella til að velta fyrir sér sökum EM, vakti kannski mesta athygli að hann skyldi vera með hinn misáreiðanlega Cole Palmer sem skilaði níu stigum.

„Mér líst vel á þetta lið, það er ekki hægt að neita því. Skemmtilegt að vera með Palmer, áhætta, en það borgaði sig núna og Chelsea er með frábært prógramm. Ég held að hann sé ekkert allt of ánægður með O‘Reilly og Foden í akkúrat þessari umferð en hann er með tvöfalda Arsenal-vörn. Van Dijk er búinn að valda vonbrigðum en þetta lítur mjög vel út hjá honum,“ sagði Albert en umræðuna má heyra hér að ofan.

Alla Fantasýn-þættina má heyra á tal.is.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×