Handbolti

Dagur fagnaði sigri á móti Faxa

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Dagur Sigurðsson ræðir málin við leikmenn sína.
Dagur Sigurðsson ræðir málin við leikmenn sína. Getty/Pixsell

Lærisveinar Dags Sigurðssonar í króatíska landsliðinu í handbolta eru nánast öruggir áfram í milliriðli á EM í handbolta eftir sex marka sigur á Hollendingum í kvöld en Hollendingar eru úr leik.

Króatía vann leikinn 35-29 eftir að hafa verið tveimur mörkum yfir í hálfleik, 15-13.

Svíinn Staffan „Faxi“ Olsson þjálfar hollenska landsliðið en hann varð að sætta sig við tap á móti íslenska þjálfaranum í kvöld. Olsson fór oft illa með íslenska landsliðið á árum áður sem lykilmaður sænska landsliðsins.

Króatíska liðið slapp reyndar með skrekkinn í þriggja marka sigri á Georgíumönnum í fyrsta leik en þeir fylgdu því síðan eftir með mikilvægum sigri í kvöld. Tveir sigrar í fyrstu tveimur leikjunum hjá Degi og félögum.

Hollendingar voru að berjast fyrir lífi sínu enda höfðu þeir tapað á móti Svíum í fyrsta leik. Þeir héngu lengi vel í króatíska liðinu og náðu að jafna metin í seinni hálfleiknum.

Króatíska liðið var mun sterkara á endakafla leiksins og verður komið áfram vinni Svíar leik sinn á móti Georgíumönnum seinna í kvöld. Fari svo, spila Króatar hreinan úrslitaleik um sigur í riðlinum, á móti Svíum í lokaleik riðilsins.

Ivan Martinovic átti frábæran leik hjá Króötum og skoraði níu mörk en Zvonimir Srna var með sex mörk.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×