Fótbolti

Kínverjar segja strákana okkar á leiðinni að spila vináttuleik í Guangzhou

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Eru strákarnir aftur á leiðinni til Kína?
Eru strákarnir aftur á leiðinni til Kína? Vísir/Eyþór
Íslenska landsliðið í fótbolta mun spila vináttuleik við Kína í Guangzhou 10. nóvember samkvæmt frétt kínverska fréttamiðilsins Sohu.

Strákarnir okkar komust beint á HM á mánudagskvöldið og leitar KSí því að vináttuleikjum fyrir liðið þar sem það þarf ekki að fara í umspil.

Kína er sagt vera að bjóða Kólumbíu og Íslandi í heimsókn og búið sé að semja um að báðar gestaþjóðirnar mæti með sitt sterkasta lið til leiks.

Samband knattspyrnusambanda Íslands og Kína ætti að vera gott en stelpurnar okkar spiluðu á æfingamóti þar fyrir ári síðan og strákarnir fóru í ferð þangað í janúar og spiluðu í Kínabikarnum.

Ef marka má fréttina virðist þetta allt klappað og klárt en Klara Bjartmarz, framkvæmdastjóri KSí, hefur aðra sögu að segja.

„Við vorum ekki á leiðinni til Kína þegar að ég fór úr vinnunni í gær og ég á ekki von að það hafi breyst. Svo þegar ég mæti kannski í vinnuna núna erum við með margra milljóna króna tilboð um að fara þangað. Þannig var allavega ekki staðan í gær,“ segir Klara.

„Ég get ekki sagt að við séum ekki að fara til Kína en heldur ekki staðfest að við séum að fara þangað. Við erum með erlenda ráðgjafa sem eru að hjálpa okkur að finna verkefni og við vonumst til að vera búin að finna lausn á þessu mjög fljótlega,“ segir Klara Bjartmarz.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×