Fótbolti

Strákarnir okkar eru í öruggum höndum

Tómas Þór Þórðarson í Antalya skrifar
Víðir Reynisson passar upp á öryggi strákanna okkar.
Víðir Reynisson passar upp á öryggi strákanna okkar. vísir/óskaró
Öryggi er kannski ekki beint fyrsta orðið sem margir tengja við Tyrkland eftir valdarán og hryðjuverkatilraunir þar undanfarin misseri en það virðist enginn þurfa að óttast of mikið um strákana okkar. Þeir eru í öruggum höndum.

Lögreglumenn fylgja íslenska liðinu og svo er lögreglan með sólarhringsvakt fyrir utan hótelið eins og á flestum öðrum hótelum í Belek-hluta Antalya sem er mikill ferðamannastaður.

„Mönnum hérna er svo rosalega annt um orðsporið sitt að þeir passa að ekkert komi hér upp á. Hér koma stór félagslið og önnur landslið reglulega þannig að vel er passað upp á alla,“ segir Víðir Reynisson, öryggisstjóri íslenska hópsins í Tyrklandi.

Strákarnir fljúga til Eskisehir á miðvikudagskvöldið þar sem önnur lögregla tekur við íslenska liðinu en Víðir óttast ekkert þar enda borgin með þeim framsæknari í Tyrklandi.

„Þetta er mjög frjálslynd háskólaborg. Það verður hugsað mjög vel um okkur þar líka. Tyrkirnir eru í mestu veseni bara með sitt fólk þegar á leik stendur en við erum í góðum málum,“ segir Víðir Reynisson.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×