Fótbolti

Kári: Ég á heima í skoska boltanum en ekki á Kýpur

Tómas Þór Þórðarson í Antalya skrifar
Kári Árnason, miðvörður íslenska landsliðsins í fótbolta, segist eiga heima í skoska boltanum en hann vonast til að endurheima sæti sitt í byrjunarliði Íslands fyrir leikinn á móti Tyrklandi.

Kári Árnason  missti sæti sitt í byrjunarliðinu þegar Ísland vann Úkraínu, 2-0, í síðasta leik liðsins í undankeppni HM 2018 en næsta verkefni er leikur á móti Tyrklandi á föstudagskvöldið. Hann var búinn að spila 27 mótsleiki í röð við hlið Ragnars Sigurðssonar áður en Sverrir Ingi Ingason hirti af honum sætið eftir tapið á móti Finnlandi.

„Það var svolítið erfitt að taka þessu. Ég gaf allt í þennan leik á móti Finnum og skildi þar ekkert eftir á vellinum. Ég var kannski ekki í besta leikforminu þannig að ég skildi ákvörðunina. Heimir ákveður hver spilar en auðvitað er ég klár og til í að spila. Ég virði ákvörðun hans hver sem hún verður,“ segir Kári.

„Svona er þessi heimur. Þetta gerist og maður verður að vera tilbúinn að taka svona hlutum. Þetta er ekki persónulegt og ég tek því ekki þannig.“

Kári gekk í raðir Aberdeen í Skotlandi í sumar þar sem hann spilaði áður á ferlinum. Hlutirnir gengu ekki vel til að byrja með en hann hefur verið að spila stórvel í síðustu leikjum og farinn að finna sig aftur í skoska boltanum sem hentar harðjaxlinum mjög vel.

„Ég er búinn að vera í Svíþjóð og svo á Kýpur þannig að það voru viðbrigði að koma aftur í breska kraftaboltann. Það tók mig smá tíma að fóta mig aftur í þessu og að muna hvernig maður spilar þarna. Þetta er samt miklu skemmtilegra og ég á heima þarna miklu frekar en á Kýpur,“ segir Kári Árnason.

Alla fréttina úr kvöldfréttum Stöðvar 2 má sjá hér að ofan.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×