Fótbolti

Lagerbäck segir engan vera betri en hefur samt aldrei valið hann í landsliðið

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Martin Ödegaard hefur bara spilað með 21 árs landsliðinu að undanförnu.
Martin Ödegaard hefur bara spilað með 21 árs landsliðinu að undanförnu. Vísir/Getty
Lars Lagerbäck, þjálfari norska landsliðsins í knattspyrnu, hefur hrósað norska undrabarninu Martin Ödegaard sem hefur verið að spila vel með hollenska liðinu Heerenveen í upphafi tímabilsins.

Lagerbäck hefur stýrt norska landsliðinu í fimm leikjum en hann hefur þó enn ekki valið Ödegaard í landsliðshópinn sinn.

Martin Ödegaard er fæddur í desember 1998 en hann var orðinn leikmaður spænska stórliðsins Real Madrid aðeins sextán ára gamall. Ödegaard tókst hinsvegar að stand undir öllum væntingunum og var lánaður frá Real Madrid til Heerenveen í janúar síðastliðnum.

Ödegaard er þegar búinn að spila níu A-landsleiki fyrir Noreg en hann hefur aldrei verið valinn eftir að Lars Lagerbäck tók við. Lagerbäck fylgist samt vel með honum en ætlar að fara farlega með efnilegast knattspyrnumanna Norðmanna.

„Þegar kemur að tækninni þá er enginn leikmaður með norskt vegabréf betri en hann í dag. Hann hefur möguleika til að ná mjög langt,“ sagði Lars Lagerbäck í viðtali við norska sjónvarpið.

Martin Ödegaard hefur spilað fimm leiki með Heerenveen í upphafi tímabilsins en liðið hefur unnið þrjá síðustu leiki og er enn taplaust á leiktíðinni.

„Það er sem er best í stöðunni er að hann er að spila alla leiki frá upphafi til enda. Það er það mikilvægasta í dag fyrir svona ungan leikmann,“ sagði Lars Lagerbäck.

„Hann er mjög hæfileikaríkur og það er mjög jákvætt að hann sé að spila. Það er síðan bara undir honum sjálfum komið hversu langt hann nær,“ sagði Lagerbäck.

Ödegaard var yngsti landsliðsmaður Norðmanna frá upphafi þegar hann lék sinn fyrsta landsleik 15 ára og 253 daga gamall. Margir eru á því að Norðmenn hafi tekið hann alltof fljótt inn í landsliðið.

Framundan eru landsleikir við Aserbaídsjan og Þýskalands sem eru síðustu leikir Norðmanna í undankeppni HM en norska liðið á ekki lengur möguleika að komast upp úr riðlinum.

„Það verða engar stórar breytingar á hópnum en það er alltaf einhver hreyfing á 23 manna hópnum. Hvaða breytingar eða hve margar gef ég ekki upp á þessum tímapunkti,“ sagði Lars Lagerbäck.

Lars Lagerbäck þjálfari norska landsliðsins.Vísir/Getty



Fleiri fréttir

Sjá meira


×