Skoðun

Baráttan gegn kynferðisofbeldi

Ágúst Ólafur Ágústsson skrifar
Ötul barátta þolenda, aðstandenda og hugsjónafólks gegn kynferðisofbeldi og kynbundnu ofbeldi hefur ekki farið framhjá neinum landsmanni. Loksins má segja að þessi barátta sé komin rækilega á dagskrá og óbreytt ástand verður ekki liðið lengur.

Á þriðja hundrað barna leitar í Barnahús á hverju ári sem fyrst og fremst aðstoðar og rannsakar börn þegar grunur er um kynferðisafbrot. 22% kvenna á aldrinum 18-80 ára hafa verið beittar líkamlegu eða kynferðislegu ofbeldi í nánu sambandi. Þetta eru geigvænlega tölur í litlu samfélagi.

Það getur því komið sérkennilega fyrir sjónir að það þurfi linnulausa árverkni við að koma þessum málum á dagskrá stjórnmálanna og til að ná eðlilegum réttarbótum í þessum málum. Eitt af því sem hefur verið rifjað upp í umræðu undanfarinna daga er afnám fyrningarfrests í kynferðisbrotum gegn börnum. Það mál var fyrsta þingmálið mitt á Alþingi fyrir hartnær 15 árum. Mér fannst fullkomlega óeðlilegt að gerendur slíkra brota skyldu hagnast á löggjöfinni með þeim hætti sem þeir gerðu. Þetta var mál sem ég hélt að myndi komast auðveldlega í gegnum þingið. Annað kom á daginn og það var ekki fyrr en eftir 4 ára baráttu á þingi, í fjölmiðlum og í blaðaskrifum, og eftir 25 þúsund manna undirskriftarsöfnun sem breytingin náði loksins í gegn. Þar með varð Ísland fyrsta landið í heiminum til að afnema fyrningarfresti í alvarlegum kynferðisafbrotum gegn börnum.

Annað stórmál sem tók talsverðan tíma til að komast í gegnum Alþingi var lögfesting Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna. Þingsályktun þess efnis var einmitt síðasta þingmálið sem ég lagði fram á Alþingi og fékk samþykkt. Með lögfestingu Barnasáttmálans, sem sárafá ríki heims hafa gert, jókst réttarvernd barna til muna hér á landi. Það er mikilvægt að Alþingi taki sér ekki viðlíka tíma í að stíga næstu skref á þessari braut. Nú er kominn tími til að baráttan gegn kynferðisofbeldi og kynbundnu ofbeldi verði sett í algjöran forgang hjá stjórnvöldum.

Ágúst Ólafur Ágústsson, háskólakennari og fyrrverandi alþingismaður Samfylkingarinnar




Skoðun

Skoðun

Börnin okkar

Halla Karen Kristjánsdóttir,Anna Sigríður Guðnadóttir,Valdimar Birgisson skrifar

Sjá meira


×