Viðskipti innlent

Taldir hafa grætt tæpar 50 milljónir á meintum innherjasvikum

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Þetta er í fyrsta sinn frá falli fjármálakerfisins sem héraðssaksóknari rannsakar mál er varðar meint brot í viðskiptum með bréf í skráðu félagi.
Þetta er í fyrsta sinn frá falli fjármálakerfisins sem héraðssaksóknari rannsakar mál er varðar meint brot í viðskiptum með bréf í skráðu félagi. Vísir/Vilhelm
Héraðssaksóknari telur að hópur manna sem grunaðir eru um að hafa nýtt sér innherjaupplýsingar í viðskiptum með hlutabréf í Icelandair Group hafi hagnast um tæpar 48 milljónir á viðskiptunum.

Þetta kemur fram í dómi Hæstaréttar sem staðfest hefur dóm Héraðsdóms Reykjavíkur um haldlagningu á fjármunum yfirmanns hjá Icelandair sem tengist málinu. Hann hefur verið sendur í leyfi vegna málsins. Alls var lagt hald á sjö milljónir króna í tengslum við rannsókn á þætti þessa tiltekna einstaklings í hinum meintu innherjasvikum.

Er hann grunaður um að hafa látið hópi manna í té innherjaupplýsingar sem nýttar voru til viðskipta með hlutabréf í Icelandair Group í aðdraganda þess að félagið sendi frá sér afkomutilkynningar til kauphallar.

Mennirnir gerðu svonefnda framvirka samninga við innlendar fjármálastofnanir, þar á meðal Landsbankann, en ljóst þykir að þær hafi tapað háum fjárhæðum á samningunum.

Hinn grunaði yfirmaður var í slagtogi með að minnsta kosti þremur mönnum, en einn þeirra hlaut nýlega fangelsisdóm í Hæstarétti fyrir peningaþvætti, fíkniefnabrot og rekstur á spilavíti. Á meðal sönnunargagna eru tölvupóstar sem yfirmaðurinn sendi til meintra samverkamanna sinna.

Þetta er í fyrsta sinn frá falli fjármálakerfisins sem héraðssaksóknari rannsakar mál er varðar meint brot í viðskiptum með bréf í skráðu félagi.


Tengdar fréttir

Hlutabréf Icelandair lækkað um 40%

Bréfin féllu um 3,3 prósent í verði í rúmlega 560 milljóna króna viðskiptum í gær, en alls hefur gengi bréfanna fallið um tæp sextán prósent síðustu sjö daga.

Yfirmaður hjá Icelandair sendur í leyfi vegna rannsóknar FME

Yfirmaður hjá Icelandair grunaður um brot á lögum um verðbréfaviðskipti. Var sendur í leyfi frá störfum í lok maí. Rannsóknin beinist að viðskiptum með bréf í aðdraganda kolsvartrar afkomuviðvörunar sem félagið sendi frá sér 1. febrúar.

Töpuðu stórfé á meintum innherjasvikum

Landsbankinn var á meðal þeirra fjármálastofnana sem töpuðu fjármunum á umfangsmiklum viðskiptum við menn sem bjuggu yfir innherjaupplýsingum um Icelandair Group. Fjármálastofnanir töpuðu tugum milljóna króna vegna viðskiptanna.

Rannsókn á innherjasvikum miðar ágætlega

Rannsókn héraðssaksóknara á meintum innherja­svikum yfirmanns hjá Icelandair er ágætlega á veg komin. Ekki er þó vitað hvenær henni lýkur, að sögn Ólafs Þórs Haukssonar héraðssaksóknara.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×