Mikil fólksfjölgun hefur orðið á Suðurnesjum undanfarin misseri og virðist ekkert lát á fjölguninni. Það sem af er ári hefur íbúum í Reykjanesbæ fjölgað um 7,3 prósent. En á síðasta ári fjölgaði íbúum um 8 prósent.

Kjartan áætlar að miðað við að hægi aðeins á fjölgun íbúa eftir næstu tvö ár þá þurfi að byggja um 2.200 íbúðir í Reykjanesbæ til ársins 2030 eða tæplega 200 á ári. Hann telur þó að Reykjanesbær geti tekið við slíkri fólksfjölgun.
„Við endurskoðuðum aðalskipulag Reykjanesbæjar og kláruðum það í vor. Nú er komið í gildi nýtt aðalskipulag sem gildir til 2030. Þar er gert ráð fyrir nokkrum sviðsmyndum varðandi íbúaþróun og íbúafjölgun. Fjölgun er gríðarleg núna, var gríðarleg í fyrra, en ef við gefum okkur síðan að þetta dragist aðeins saman og meðalfjölgun verði um 2,5 prósent á ári á þessu tímabili þá þurfum við að byggja um 2.200 íbúðir. Aðalskipulagið gerir ráð fyrir því að það sé nægt framboð af landi,“ segir Kjartan.
„Þannig að ég held að við séum klár í þennan kúf sem var í fyrra og er núna og verður að minnsta kosti á næstu tveimur árum. Við getum ráðið við hann, en ef við sjáum ekki fram á að fólksfjölgunin dragist saman þá þurfa menn að endurskoða deiliskipulag,“ segir Kjartan.
Nú þegar hefur íbúum fjölgað töluvert á Suðurnesjum á árinu en á öðrum ársfjórðungi voru þeir rúmlega 25 þúsund, eða tæplega 5 prósent fleiri en í ársbyrjun, samkvæmt tölum Hagstofunnar.
Eftirspurn eftir íbúðum á svæðinu er nú þegar töluverð svo búast má við að þörfin fyrir húsnæði sé jafnvel enn meiri. Fréttastofa 365 hefur fjallað ítarlega um húsnæðisskort á svæðinu undanfarin misseri, sérstaklega meðal fólks á leigumarkaði. „Það er verið að taka í notkun hvern einasta fermetra á svæðinu,“ segir Kjartan. Hann bendir á að miklar byggingaframkvæmdir standi yfir um þessar mundir.
Mikill viðsnúningur hefur orðið á Suðurnesjum síðustu ár. Fram kemur í skýrslu Íslandsbanka, Suðurnes í sókn, að atvinnuleysi á svæðinu sé nú lítið sem ekkert og atvinnusköpun, sérstaklega í kringum flugvöllinn, hafi verið mikil. Íbúum á svæðinu hafi fjölgað gríðarlega, hlutfallslega langmest miðað við aðra landshluta, og nú sé svo komið að eftirspurn eftir húsnæði sé mjög mikil.
Kjartan segir að flugvöllurinn trekki að töluvert af fólki, sérstaklega af erlendum uppruna. „Það er rosalega hátt hlutfall af íbúum núna með erlent ríkisfang, eða 19,4 prósent af íbúum Reykjanesbæjar. Í sumum skólum er hlutfall nemenda með erlent ríkisfang komið upp í 30 prósent. Í skýrslu sem gerð var fyrir Isavia, og er þá miðað við farþegaspá og vöxt í millilandafluginu, mun störfum í kringum millilandaflugið fjölga um að meðaltali 400 á ári, sem er eins og eitt stykki álver á ári,“ segir Kjartan.