Umfjöllun, viðtöl og einkunnir: Víkingur Ó. - Valur 1-2 | Pedersen tryggði Valsmönnum sex stiga forskot á toppnum

Þór Símon Hafþórsson í Ólafsvík skrifar
Vísir
Valur heimsótti Víking Ó. í Ólafsvík í kvöld og sótti í dýrmæt þrjú stig með 2-1 sigri þar sem Patrick Pedersen kvittaði undir endurkomu sína í Valsliðið með sigurmarki í upphafi seinni hálfleiks.

Uppstilling Vals olli miklum usla í liði Ólsara og þá sérstaklega fyrsta hálftíma leiksins en liðið var með þrjá miðverði og tvo „vængbakverði“ en bakverðirnir umtöldu, Sigurður Egill og Andri Adolphsson, spiluðu mjög hátt upp á vellinum og þá hreinlega eins og hreinræktaðir sóknarmenn.

Valsmenn léku á alls oddi og skoruðu loksins eftir 24 mínútna leik. Í kjölfarið svöruðu heimamenn þó fyrir sig og byrjuðu að setja pressu á gestina og uppskáru mark eftir klaufagang í vörn Valsmanna er Guðmundur Steinn jafnaði metin en markið skrifast af stórum hluta á Eið Aron Sigurbjörnsson, varnarmann Valsmanna.

Staðan 1-1 í hálfleik en Valsmenn tóku forystuna aftur strax í upphafi seinni hálfleiks er Patrick Pedersen fór illa með Ignacio Heras, miðvörð Víkinga, og smellti svo boltanum í fjærhornið með glæsilegu skoti. Frábært að fá þennan markaskorara aftur í Pepsi deildina og þá eru það sérstaklega Valsmenn sem fagna.

Valsmenn voru með yfirhöndina það sem eftir lifði í seinni hálfleik og sigldu sigrinum á endilega heim með tiltölulega þægilegu móti. Lokatölur, 2-1, Valsmönnum í vil.

Af hverju vann Valur?

Valsmenn mættu gífurlega einbeittir til leiks og gjörsamlega keyrðu yfir heimamenn á upphafsmínútum leiksins.

Liðið spilaði af miklum krafti og átti ótrúlega auðvelt með að finna svæði en það voru alltaf 4-5 menn lausir, tilbúnir að fá boltann. Þetta gerði Ólafsvíkingum erfitt fyrir en að mínu mati má skrifa það af stórum hluta á uppstillingu Vals sem var sókndjörf svo vægt sé til orða tekið.

Valsmenn spilaði eiginlega með þrjá miðverði og svo sjö sóknarmenn. Haukur Páll og Guðjón Pétur Lýðsson, stýrðu miðjuspilinu af stakri snilld með góðri hjálp frá Einari Karl Ingvarssyni og voru óhræddir við að taka hlaup inn í teiginn.

Að auki voru „vængbakverðirnir“ tveir hátt upp á velli og gáfu Ólsurum engan tíma til að athafna sig.

Víkingur Ó. má þó eiga það að þeir virðast alltaf finna leiðir til að skapa sér færi og, undanfarnar vikur, hafa þeir fundið leiðina af markinu trekk í trekk enda jafnaði liðið leikinn og myndu þá margir segja: Þvert gegn gangi leiksins.

En eftir að Valsmenn komust yfir aftur í upphafi seinni hálfleiks var varla spurning um hvernig þessi leikur myndi enda.

Ólsarar náðu sér aldrei aftur á strik og Valsmenn hreinlega lokuðu á allar glufur.

Maður leiksins: Guðjón Pétur Lýðsson, Val

Einkunnir allra leikmanna má sjá í flipanum „Liðin“ efst í fréttinni.

Hverjir stóðu upp úr?

Þvílík unun að fá Patrick Pedersen aftur í deildina en hann fann fæturna vægast sagt í kvöld og eftir því sem leið á leikinn kom hann sér meir og meir inn í leikinn og uppskar mark og skot í stöng að auki. Hann á eftir að reynast Valsmönnum dýrmætur. Það er bókað mál.

Haukur Páll og Guðjón Pétur voru frábærir á miðjunni og Anton Ari var heilt yfir sterkur í markinu þó svo að einhver spurningamerki séu yfir staðsetningu hans í jöfnunarmarki Víkings.

Hjá Ólsurum ber að hrósa Cristian Martinez, markverði liðsins, en enn án hans og markrammans hefði sigur Vals getað orðið jafnvel stærri.

 

Kwame Qee er einnig að leggja það í vana sinn að vera ávallt einn af helstu ljósu punktum Ólsara, í tapi og sigrum, og Guðmundur Steinn, framherji liðsins, er að reynast þeim vel en í dag fékk hann ekki úr miklu að moða en skilaði engu að síður marki.

En Óli Jó, þjálfari Vals, fær stórt og jákvætt prik fyrir liðsuppstillingu sína umtöluðu en það verður spennandi að sjá hvort og hvernig þessi uppstilling kemur til með að þróast það sem eftir lifir sumars.

Hvað gekk illa?

Víkingur Ó. náði ekki mikilli festu í þessum leik en Ejub, þjálfari liðsins, sagði eftir leik að honum hefði þótt sínir menn vera lengi að pressa á Valsmenn og gefið þeim alltof mikinn tíma.

Þrátt fyrir glimrandi góðan sigur var einnig smá vesen á miðvörðum Vals en Eiður Aron átti fyrra mark, Ólsara, skuldlaust er hann leyfði boltanum af einhverjum óskiljanlegum ástæðum að skoppa tvisvar í stað þess að skalla boltanum í burtu en á endanum komst Guðmundur Steinn í boltann og skoraði.

Bjarni Ólafur átti lélega sendingu til baka á Anton sem Kwame Qee Komst í en skot hans var beint á Anton í markinu, sem betur fer fyrir Bjarna.

En ný liðsuppstilling þýðir kannski að svona misskilningar geta komið fyrir en Óli Jó, þjálfari Valsmanna, verður að slípa þetta til fyrir komandi átök. Smiðurinn sjálfur ætti ekki að vera í miklum vandræðum með það.



Sigurbjörn: Ætluðum að koma þeim á óvart

Sigurbjörn Örn Hreiðarsson, betur þekktur sem Bjössi, aðstoðarþjálfari Valsmanna, sagði að 2-1 sigurinn á Víking Ó. hafi aldrei verið í einhverjum vafa. Hann hrósaði leik liðsins og tók undir með undirrituðum að uppstilling Vals hefði verið eilítið óhefðbundin.

„Við vorum með vængbakverðina mjög hátt. Ætluðum okkur það í dag og þá kannski koma þeim smá á óvart,“ sagði Bjössi en Valsmenn eru núna með sex stiga forystu á toppnum. Hann segir að liðið ætli að taka eina gamla góða klisju á komandi átök.

„Við erum í góðri stöðu. Það er alveg á hreinu. En gamla klisjan, við tökum bara einn leik í einu,“ sagði Sigurbjörn.

Hann gefur lítið fyrir kosti þess að fá aukna hvíld eftir að liðið datt út úr Evrópukeppninni á dögunum með naumu tapi í Slóveníu.

„Við vildum vera áfram í Evrópukeppninni. Við reyndum allt og vorum mjög nálægt því að komast áfram og erum mjög svekktir að hafa fallið úr leik. Vika á milli leikja er líka full langur tími. Erfitt að ná sama takti,“ sagði Sigurbjörn.



Ejub Pursevic: Áttum að gera betur

Ejub Pursevic, þjálfari Víkinga Ó., var hreinskilin í leikslok en þjálfari Víking Ó. gagnrýndi leikmenn sína fyrir að gefa Valsmönnum alltof mikinn tíma á boltanum.

„Í fyrri hálfleik og sérstaklega fram að marki var eiginlega eins og við værum að bíða eftir því að fá á okkur mark. Og þá loksins byrjum við að spila eitthvað og jöfnum með góðu marki. En við fengum svo mark á okkur alltof snemma í seinni hálfleik. Mér finnst við hafa átt að gera betur en við gerðum,“ sagði Ejub.

Hann hrósaði Valsliðinu og gaf lítið fyrir umtalaða uppstillingu liðsins. Hann vildi frekar skella skuldina á sína menn frekar en liðsuppstillingu Vals.

„Valur heldur boltanum svo vel. Þrír, fjórir eða fimm í vörn, það skiptir eiginlega engu máli. En við áttum í miklum erfiðleikum með að setja pressu á þá. Og kannski var það bara hreinlega útaf því að við vorum of seinir og gáfum manninum á boltanum alltof mikinn tíma,“ sagði Ejub.

Hann segist vera spenntur fyrir leikinn gegn KR í næstu umferð og hvetur Ólafsvíkinga til þess að njóta þess að sjá liðið spila í efstu deild á móti þessum bestu liðum. En hann vonast að auki til þess að sjá sína menn gefa KR meiri leik en liðið gerði fyrir Valsmenn í dag.

„Við eigum að njóta þess að spila á móti þessum stórum liðum. Í dag t.d. var að mæta Val góð og skemmtileg upplifun fyrir bæjarbúa og ég á því að við eigum að njóta þess að spila gegn liðum eins og Val, KR, FH og gefa þeim alvöru leik. Við erum alltaf vongóðir fyrir leik,“ sagði Ejub.



Guðjón Pétur Lýðsson: Dýrmætt að fá Pedersen til baka

Guðjón Pétur Lýðsson skoraði fyrsta mark Valsmanna í kvöld í 2-1 sigri á Ólafsvíkingum. Hann segir að gæði liðsins hafi sést mjög vel í leik kvöldsins en sagði að þau hefðu átt að skila meiri mörkum.

„Við hefðum átt að skora fleiri mörk en við gerðum í kvöld. Það var algjör óþarfi að hleypa þeim inn í leikinn í fyrri hálfleik. En svo klárum við þetta með gæða marki frá Pedersen í seinni,“ sagði Guðjón Pétur Lýðsson.

Hann segir dýrmætt að fá markaskorarann, Patrick Pedersen, aftur.

„Já hann getur alltaf gefið þér mark, hreinlega upp úr engu þannig það er dýrmætt að fá hann til baka,“ sagði Guðjón Pétur en Guðjón Pétur gaf lítið fyrir að pressa væri á Valsmönnum að vinna titil enda væri sú pressa alltaf til staðar á Hlíðarenda

„Það er alltaf krafa hjá Val að ná í titla þannig það er ekkert nýtt. Ef frammistaðan er svona það sem eftir lifir sumars og þá lítur þetta bara þokkalega vel út.“

Hann var ekki tilbúinn að fagna meiri hvíld á milli leikja eftir að liðið datt út úr Evrópukeppni á dögunum. Hann sagði þó að liðið hefði lært hitt og þetta sem gæti komið þeim langt í sumar.

„Nei ég er hundfúll með að detta út úr þessari keppni. Við gáfum þeim hörkuleik og fáum svo á okkur klaufamark sem sló okkur aðeins útaf laginu. En þetta leikkerfi kom í rauninni þaðan. Evrópukeppnin getur kennt þér nýja hluti og við lærðum mikið þar,“ sagði Guðjón Pétur.



Guðmundur Steinn: Bjartsýnn á framhaldið

Guðmundur Steinn Hafsteinsson var ekki sáttur í leikslok eftir 2-1 tap gegn Valsmönnum. Hann sagði að sínir menn hefðu átt að gera betur.

„Það er engin skömm að tapa gegn Val en við hefðum kannski getað gefið þeim meiri leik á köflum,“ sagði Guðmundur Steinn Hafsteinsson.

Hann kveðst bjartsýnn á framhaldið en viðurkennir að þrátt fyrir gott gengi upp á síðkastið er lítið pláss fyrir frekari mistök.

„Það er búið að vera mikill stígandi í liðinu að undanförnu og við erum að spila miklu betur en við gerðum í byrjun móts. Aftur á móti þá erum við í 10. sæti þannig það er ekkert mikið svigrúm en ég er þokkalega bjartsýnn á framhaldið,“ sagði Guðmundur Steinn

Hann segir leikurinn gegn KR sé einungis enn eitt tækifærið fyrir Víkinga til að næla í þrjú stig.

„Það er bara enn eitt tækifærið fyrir okkur að fá þrjú stig. KR er með sterkt lið og þeir virðast vera að finna meiri takt þannig það er undir okkur komið að stöðva þá,“ sagði Guðmundur Steinn.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira