Erlent

Segir Donald Trump trúa á loftslagsbreytingar

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Nikki Haley, sendiherra Bandaríkjanna hjá Sameinuðu þjóðunum.
Nikki Haley, sendiherra Bandaríkjanna hjá Sameinuðu þjóðunum. vísir/afp
Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, hefur trú á því að loftslagið sé að breytast, að hluta til vegna mengunar, að sögn Nikki Haley, fastafulltrúa Bandaríkjanna hjá Sameinuðu þjóðunum.

Þetta er meðal þess sem kemur fram í viðtali við Haley á sjónvarpstöðinni CNN sem sýnt verður á morgun. Þar reynir hún að skýra sjónarmið forseta Bandaríkjanna varðandi loftslagsbreytingar. Hann ákvað sem kunnugt er að draga Bandaríkin út úr Parísarsamkomulaginu um loftslagsmál í vikunni.

„Trump forseti trúir því að loftslagið sé að breytast og hann telur að mengun sé hluti af þeirri jöfnu. Það er staðreynd, þar stöndum við,“ sagði Haley.

Mikill meirihluti vísindamanna á svið loftslagsmála telur að mengun af mannavöldum sé aðaldrifkraturinn á bak við hlýnun jarðar.

„Hann veit að það [loftslagið] er að breytast og hann veit að Bandaríkin þurfa að axla ábyrgð. Það er það sem við munum gera. Það að við gengum út úr klúbbnum þýðir ekki að okkur sé sama um umhverfið,“ sagði Haley.

Áður en Trump tók við embætti forseta Bandaríkjanna hafði hann oft sagt að hlýnun jarðar væri gabb. Árið 2012 sagði hann einnig að hlýnun jarðar væri hugmynd sem Kínverjar hefðu skapað til þess að skaða samkeppnisstöðu Bandaríkjanna.

Haley var einnig spurð um ástæður þess að Bandaríkin ákvaðu að draga sig úr Parísarsamkomulaginu en samkvæmt samkomulaginu skuldbinda Bandaríkin sig meðal annars til þess að draga úr útblæstri gróðurhúsalofttegunda um 26 til 28 prósent af því sem útblásturinn var árið 2005 fyrir árið 2025.



„Heimurinn vildi segja okkur hvernig við ættum að gera þetta og við erum að segja að við munum gera þetta, bara á okkar forsendum,“ sagði Haley.


Tengdar fréttir

Umhverfisráðherra um ákvörðun Trump: „Við höldum ótrauð áfram“

Björt Ólafsdóttir, umhverfisráðherra, segir ákvörðun Donalds Trump, Bandaríkjaforseta, um að draga Bandaríkin út úr Parísarsamkomulaginu mikil vonbrigði. Hún segir þó nú enn brýnna en áður að aðrar þjóðir taki höndum saman og haldi ótrauðar áfram í baráttunni gegn gróðurhúsaáhrifum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×