Skoðun

288.000 á mánuði í heildartekjur árið 2022

Ellen Calmon skrifar

Samkvæmt fjármálaáætlun ríkisins til ársins 2022 er engan veginn sett nægilegt fjármagn í heilbrigðiskerfið. Fjármunir eru settir í byggingu nýs spítala sem er gott og gilt en ekki nægilegir fjármunir til að bæta í raun þjónustu innan kerfisins. Samkvæmt rannsóknum Rúnars Vilhjálmssonar, prófessors við Háskóla Íslands, erum við að færast óðfluga fjær félagslegu heilbrigðiskerfi sem hefur verið litið á sem hornstein íslensks heilbrigðiskerfis hingað til.



Fjármálaáætlunin boðar ekki heldur betra líf fyrir örorkulífeyrisþega. Það er nú yfirlýst markmið ríkisstjórnarinnar að halda öryrkjum í fátækt með því að miða við að hækkun lífeyris verði á bilinu 3,1%-4,8% á árunum 2018-2022.



Alls ekki boðlegt

Ef við erum bjartsýn og búumst við 4,8% hækkun öll árin, þá mun mögulega óskertur örorkulífeyrir vera um 288.000 krónur árið 2022, sem er alls ekki boðlegt. Það er hætta á að örorkulífeyrisþegar sjái svartnættið eitt.



Hvað þætti þér um ef ríkisstjórnin byði þér að vera með um 288 þúsund krónur á mánuði fyrir skatt eftir fimm ár? Sæir þú fram á bjartari lífdaga?



Grundvallarhlutverk ríkisvaldsins í velferðarríki er að tryggja mannréttindi og þar á meðal að koma til móts við einstaklinga sem þurfa á aðstoð að halda. Ekki virðist vera raunveruleg ætlun ríkisstjórnarinnar að styrkja mikilvægar grunnstoðir samfélagsins með nýrri fjármálaáætlun.



Taka þarf út skerðingar

Ef það er raunverulegur vilji ríkisstjórnarinnar að hvetja örorkulífeyrisþega til aukinnar samfélagsþátttöku þá þarf að setja mun meira fjármagn í almannatryggingakerfið eða á bilinu 10-12 milljarða króna. Það þarf að taka út skerðingar vegna atvinnu- og lífeyrissjóðstekna og hækka örorkulífeyri verulega svo fólk geti fyrst á möguleika á því að lifa mannsæmandi lífi.

Gerum breytingar núna!

 



Höfundur er formaður ÖBÍ.




Skoðun

Skoðun

Börnin okkar

Halla Karen Kristjánsdóttir,Anna Sigríður Guðnadóttir,Valdimar Birgisson skrifar

Sjá meira


×