Sport

Aníta örugg inn á HM í London eftir frábært hlaup

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Aníta Hinriksdóttir.
Aníta Hinriksdóttir. Vísir/EPA
Íslenska hlaupadrottningin Aníta Hinriksdóttir hefur aðeins einu sinni hlaupið hraðar í 800 metra hlaupi en hún gerði í gær á alþjóðlegu frjálsíþróttamóti í Oordegem í Hollandi.

Aníta kom í mark á 2:00.33 mínútum og varð önnur í keppninni á eftir Shelaynu Oskan-Clarke frá Bretlandi sem hljóp á 2:00.17 mínútum.

Íslandsmet Aníta frá Ólympíuleikunum í Ríó er 2:00,14 mínútur en þegar hún sló það met í ágúst síðast liðnum þá hafði Íslandsmet hennar staðið í þrjú ár.

Aníta náði með þessu flotta hlaupi lágmarki inn á HM í London sem fer fram 4. til 13. ágúst. Lágmarkið inn á heimsmeistaramótið var 2:01,00 mínútur.  

HM í London í haust verður fimmta stórmót Anítu í röð utanhúss en hún var með á EM 2014, HM 2015, EM 2016 og ÓL 2016.

Hlaupið hjá Anítu skilar henni upp í sextánda sæti á heimslista IAAF en Caster Semenya hefur hlaupið hraðast á árinu eða á 1:56,61 mínútum. Tólf konur hafa náð að hlaupa 800 metrana á undir tveimur mínútum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×