Fótbolti

Ítalska sjö ára reglan að ganga upp einu sinni enn í Meistaradeildinni

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Jose Mourinho stýrði Inter til sigurs í Meistaradeildinni 2010.
Jose Mourinho stýrði Inter til sigurs í Meistaradeildinni 2010. Vísir/Getty
Juventus er komið í úrslitaleik Meistaradeildarinnar eftir að hafa slegið út franska spútnikliðið Mónakó út úr undanúrslitunum í gær.

Juventus mætir annaðhvort Real Madrid eða Atletico Madrid í úrslitaleiknum sem fer fram í Cardiff 3. júní næstkomandi.  

Spænski knattspyrnutölfræðingurinn Alexis Martín-Tamayo var fljótur að benda á það eftir úrslitin í gær að nú væri útlit fyrir það að ítalska sjö ára reglan væri að ganga upp einu sinni enn.







Frá og með árinu 1989 hefur ítalska lið nefnilega fagna sigri í Meistaradeildinni á sjö ára fresti en ítölsku liðin hafa reyndar bætt við nokkrum Meistaradeildartitlum líka í bónus.

AC Milan tryggði sér sigur í Evrópukeppni meistaraliða 1989 eftir sannfærandi 4–0 sigur á Steaua Búkarest í úrslitaleik á Nývangi í Barcelona. Hollendingarnir Ruud Gullit og Marco van Basten skoruðu báðir tvö mörk fyrir AC Milan.

Sjö árum síðar var úrslitaleikurinn á Ólympíuleikvanginum í Róm og þá vann Juventus sigur á Ajax í vítakeppni. Leikmenn Juve nýttu öll fjögur vítin sín en leikmenn Ajax aðeins tvö.

Árið 2003 fór úrslitaleikurinn fram á Old Trafford í Manchester og það var ljóst fyrir leikinn að ítalskt lið myndi vinna. AC Milan vann á endanum 3-2 í vítakeppni eftir að leikmenn Juve klikkuðu á þremur vítaspyrnum.

Fyrir sjö árum, eða árið 2010, vann Internazionale síðan 2-0 sigur á Bayern München í úrslitaleiknum sem fór fram á Santiago Bernabéu leikvanginum í Madrid.

Nú árið 2017 ætti því að vera komið aftur að ítölsku liði. Juventus mætir að öllum líkindum liði Real Madrid í úrslitaleiknum en Real-menn unnu í fyrra og eiga ekki bara möguleika á að vinna tvö ár í röð heldur í þriðja sinn á fjórum árum.

Auk þess að vinna á sjö ára fresti (1989, 1996, 2003 og 2010) þá unnu ítölsk lið einnig Meistaradeildina 1990 (AC Milan), 1994 (AC Milan) og 2007 (AC Milan).


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×