Fótbolti

Ótrúleg tölfræði hjá Ronaldo

Henry Birgir Gunnarsson skrifar
Ronaldo fékk sér sæti í kvöld og leyfði fólkinu að dást að sér.
Ronaldo fékk sér sæti í kvöld og leyfði fólkinu að dást að sér. vísir/getty
Að skoða tölfræði Cristiano Ronaldo í Meistaradeildinni er að eins og lesa lygasögu. Árangur hans í stærstu félagsliðakeppni heims er með ólíkindum.

Eftir þrennuna í kvöld er hann búinn að skora 103 mörk í Meistaradeildinni frá upphafi. Fleiri en nokkur annar. Til samanburðar má nefna að Atletico Madrid er búið að skora 100 mörk í Meistaradeildinni frá upphafi.

Ronaldo er líka búinn að skora 52 mörk í útsláttarkeppninni. Það þýðir að hann er með marki meira í útsláttarkeppninni en í riðlakeppninni. Það er auðvitað rugl. Það sér hver maður.

Portúgalinn er nú búinn að spila 86 leiki í Meistaradeildinni með Real Madrid. Í þeim leikjum hefur hann skorað 88 mörk og gefið 23 stoðsendingar. Mjög eðlilegt.

Ronaldo er búinn að skora yfir tíu mörk í Meistaradeildinni sex tímabil í röð. Þrenna hans í kvöld var sú sjöunda í keppninni og jafnaði hann þar með met Lionel Messi þar.

Ronaldo er aftur á móti fyrstur til þess að skora tvær þrennur í útsláttarkeppninni og sá fyrsti til þess að skora þrennu tvo leiki í röð.

Hann varð líka í kvöld fyrsti maðurinn til þess að skora þrennu gegn Atletico í Evrópukeppnum.

Með öðrum orðum. Hann er lygilegur leikmaður.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×