Sport

Usain Bolt vildi hætta eftir Ólympíuleikana

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Usain Bolt.
Usain Bolt. Vísir/AFP
Jamaíkamaðurinn Usain Bolt vann þrenn gullverðlaun á Ólympíuleikunum í Ríó í ágúst síðastliðnum og margir sáu fyrir sér að hann myndi þá segja þetta gott.  Hann hélt hinsvegar áfram en hefur nú viðurkennt að það var ekki hann sjálfur sem réði því.

„Ég vildi hætta eftir Ólympíuleikana en liðið mitt sagði nei,“ sagði Usain Bolt. Bolt er nú þrítugur en hefur unnið átta Ólympíugull og ellefu heimsmeistaragull á ferlinum. Hann nýtur enn sviðsljóssins og keppninnar.

„Ég hef ánægju af þessu. Eina ástæðan fyrir að ég er með á þessu tímabili eru áhorfendurnir. Ég vil gefa öllum tækifæri á að sjá mig einu sinni enn og áhorfendanna vegna ætla ég að keppa á fleiri mótum á þessu tímabili,“ sagði Usain Bolt.

Bolt mun keppa á HM í London eftir sex mánuði en hann er ekki farinn að hugsa um hvað hann ætlar að gera þar. „Ég horfi ekki svo langt fram í tímann. Þetta er síðasta tímabilið mitt og ég er ekki að stressa mig yfir þessu. Ég reyni alltaf að æfa eins vel og ég get. Ég ætla hinsvegar bara að einbeita mér að einum mánuði í einu,“ sagði Bolt.

Usain Bolt var með níu gullverðlaun á Ólympíuleikum en missti ein þegar liðsfélagi hans Nesta Carter féll á lyfjaprófi átta árum eftir úrslitahlaupið.

„Ég var vonsvikinn en svona hlutir gerast í lífinu. Ég ætla ekki að vera leiður yfir þessu. Ég missti medalíuna mína en nú einbeiti ég mér að því að hlaupa,“ sagði Bolt.

„Ég hef aldrei keppt svona snemma á tímabilinu og ég er því ekki í toppformi eins og er. Ég er að reyna að hlaupa mig í formi. Því meira sem ég hleyp því betur líður mér,“ sagði Bolt.


Tengdar fréttir

Ayana og Bolt valin frjálsíþróttafólk ársins

Spretthlauparinn Usain Bolt frá Jamaíku og langhlauparinn Almaz Ayana frá Eþíópíu voru í gær valin frjálsíþróttafólk ársins við hátíðlega athöfn í Mónakó.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×