Sport

Ný liðakeppni gæti verið bylting fyrir frjálsar íþróttir

Henry Birgir Gunnarsson skrifar
Bolt er hér að kynna mótið í Melbourne.
Bolt er hér að kynna mótið í Melbourne. vísir/getty
Forseti alþjóða frjálsíþróttasambandsins, Sebastian Coe, er gríðarlega spenntur fyrir nýrri liðakeppni sem fer fram í næsta mánuði og segir að hún gæti verið bylting fyrir frjálsar íþróttir.

Viðburðurinn er kallaður Nitro Athletics og þar munu sex lið með 24 keppendum taka þátt í greinum sem fólk sér venjulega ekki. Eins og 150 metra hlaupi, grindahlaupsboðhlaupi og þriggja mínútna hlaupi.

Aðalstjarnan mótsins verður fljótasti maður allra tíma, Usain Bolt, en hann mun verða aðalmaðurinn í sínu eigin stjörnuliði.

„Þetta er akkúrat það sem við þurfum. Hugrakkar og sniðugar hugmyndir sem grípa athygli fólks,“ sagði Coe.

„Íþróttin okkar er vinsæl um allan heim en við þurfum viðburði sem koma aftur með fjörið í íþróttina. Viðburði sem krakkar koma á og þar sem er stuð. Mótvægi við mót eins og heimsmeistaramótið. Svona mót getur verið algjör bylting fyrir okkur og við náð nýjum hæðum á svo mörgum sviðum.“

Mótið fer fram þann 4., 9., og 11. febrúar í Ástralíu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×