Fótbolti

Lucas Pérez með þrennu þegar Arsenal tryggði sér sigur í riðlinum | Sjáðu mörkin

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Arsenal-liðið sýndi sínar bestu hliðar þegar liðið vann 4-1 útisigur á Basel og tryggðu sér sigur í sínum riðli í Meistaradeildinni.

Arsenal þurfti að vinna leikinn og treysta um leið á hagstæð úrslit úr leik Paris Saint Germain og Ludogorets.

Búlgararnir í Ludogorets komu öllum á óvart með því að gera 2-2 jafntefli á móti á stórliði Paris Saint Germain í París.

Ludogorets, sem fékk á sig níu mörk í tveimur leikjum á móti Arsenal, komst tvisvar yfir í leiknum. Ángel Di María skoraði jöfnunarmarkið í uppbótartíma en Frakkarnir náðu ekki að tryggja sér sigurinn og sitja því eftir í öðru sæti riðilsins.

Íslenski landsliðsmaðurinn Birkir Bjarnason var ónotaður varamaður í leiknum og liðsfélagar hans áttu fá svör á móti sterku liði Arsenal.

Lucas Pérez hefur ekki spilað mikið í vetur en hann var á skotskónum í kvöld og skoraði þrjú fyrstu mörk Arsenal liðsins. Tvö þau fyrstu voru keimlík eftir stoðsendingar frá Kieran Gibbs.

Alexis Sánchez lagði upp þriðja markið fyrir Lucas Pérez í byrjun seinni hálfleiks og Alex Iwobi skoraði fjórða makrið eftir óeigingjarna sendingu frá Mesut Özil.

Basel minnkaði muninn í lokin en sigurinn var öruggur og sannfærandi.

Basel 0-1 Arsenal Basel 0-2 Arsenal Basel 0-3 Arsenal Basel 0-4 Arsenal



Fleiri fréttir

Sjá meira


×