Körfubolti

Russell Westbrook gladdi Michael Jordan

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Russell Westbrook.
Russell Westbrook. Vísir/Getty
Körfuboltagoðsögnin Michael Jordan hrósaði Russell Westbrook í ræðu sinni í gær en einn allra besti körfuboltamaður allra tíma  hélt þessa ræðu í tilefni af því að Westbrook var tekinn inn í frægðarhöllina í Oklahoma-fylki.

„Annað sem þið ættuð að vera stolt af er hollustan sem þessi strákur hefur sýnt,“ sagði Michael Jordan og fékk við það gríðarlega góð viðbrögð úr salnum. ESPN sagði frá.

Flestir sjá þetta líka sem skot á Kevin Durant, fyrrum liðsfélaga Russell Westbrook hjá Oklahoma City Thunder. Durant ákvað að fara til Golden State Warriors í júlí en svar Westbrook við því var að framlengja samning sinn við Oklahoma City Thunder í ágúst.

„Hann hefði auðveldlega getað komið til Charlotte,“ sagði Jordan brosandi en Michael Jordan er eigandi Charlotte Hornets liðsins. „Hann ákvað hinsvegar að vera áfram hér í Oklahoma. Ég er samt ekki að reyna að skjóta á einhvern sem er ekki hér,“ sagði Jordan.

„Allir hafa sitt val. Þegar ég sá að hans val var að vera áfram hér í Oklahoma þá var ég svo stoltur af honum. Russ veit það sjálfur því ég sendi honum skilaboð til að sýna þá virðingu sem ég ber fyrir þeirri ákvörðun,“ sagði Jordan.

Kevin Durant var tekinn inn í frægðarhöllina í Oklahoma-fylki  fyrir ári síðan en hann var ekki í salnum í gær enda upptekinn með nýja liði sínu Golden State Warriors.

„Það er ekki hægt að kenna ástríðuna sem hann hefur fyrir körfuboltanum. Þú ert fæddur með slíkt," sagði Jordan. Jordan hrósaði Westbrook ekki bara fyrir frammistöðuna inn á vellinum heldur einnig hvað hann er duglegur að hjálpa til í samfélaginu með góðgerðasamtökum sínum „Why Not?“

Russell Westbrook hefur byrjað NBA-tímabilið í túrbó-gírnum en hann er með 31,8 stig, 9,8 stoðsensdingar og 9,5 fráköst að meðaltali í fyrstu tólf leikjum sínum.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×