Rodrigo Duterte, forseti Filippseyja, tilkynnti í dag að Filippseyjar hefðu slitið sig frá Bandaríkjunum. Þess í stað ætlar Duterte að snúa sér til Kína, þar sem hann er nú staddur. Kína og Filippseyjar hafa samþykkt að leysa deilur sínar um Suður-Kínahaf með viðræðum.
Duterte sagði Bandaríkin hafa „tapað“ og að hann myndi mögulega einnig snúa sér mynda bandalag við Rússland.
Þetta sagði Duterte á blaðamannafundi með Zhang Gaoli, aðstoðarforsætisráðherra Kína. Skömmu áður hafði Duterte fundað með Xi Jingping, leiðtoga Kína.
„Ég hef snúið mér að ykkar hugmyndafræði og ég mun mögulega fara til Rússlands líka og segja Putin að við séum þrír á móti öllum heiminum. Kína, Filippseyjar og Rússlands. Það er eina leiðin,“ sagði Duterte.
Undir stjórn fyrrum forseta Filippseyja, Benigno Aquino, neituðu Filippseyjar að samþykkja ólögmætt tilkall Kína til Suður-Kínahafs, þar sem þeir hafa byggt fjölmargar eyjur, flugvelli og flotastöðvar.
Árið 2012 hertóku Kínverjar Scarborought skerið sem var innan efnahagslögsögu Filippseyja.
Á blaðamannafundinum sagði Duterte að Filippseyjar hefðu grætt lítið á áratugalöngu bandalagi sínu við Bandaríkin. Þá kallaði hann Barack Obama, forseta Bandaríkjanna, aftur hóruson.
Duterte er verulega ósáttur við yfirvöld Bandaríkjanna eftir að Washington, ásamt Sameinuðu þjóðunum, ESB og mannréttindasamtökum, gagnrýndu Duterte fyrir „átak“ hans gegn fíkniefnum.
Þúsundir meintra fíkniefnasala og neytanda hafa verið drepnir af lögreglu og vopnuðum gengjum borgara í Filippseyjum á undanförnum mánuðum.
