Körfubolti

Martin með 26 stig og sigur í fyrsta deildarleiknum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Martin Hermannsson.
Martin Hermannsson. Vísir/Anton
Martin Hermannsson og félagar í Charleville-Mézières byrjuðu tímabilið í frönsku b-deildinni í körfubolta á góðum heimasigri í kvöld.

Charleville-Mézières vann þá tíu stiga sigur á Poitiers, 79-69, eftir að hafa verið 40-35 yfir í hálfleik. Martin átti mjög góðan leik og var næststigahæstur í sínu liði á eftir Bandaríkjamanninum Wilbert Brown.

Martin skoraði 26 stig auk þess að taka 3 fráköst, gefa 3 stoðsendingar og stela 2 boltum. Hann var með 23 í framlag á þeim 33 mínútum sem hann spilaði og liðið vann þær mínútur með 12 stigum.

Martin hitti úr 8 af 13 skotum sínum þar af setti hann niður 2 af 3 þriggja stiga skotum. Martin hitti auk þess úr 4 af 6 vítaskotum sínum í leiknum. Wilbert Brown skoraði 28 stig en hann skoraði fjóra þrista í leiknum.

Charleville-Mézières var fimm stigum yfir í hálfleik ekki síst þökk sé sextán stigum frá íslenska bakverðinum.

Martin, sem er alinn upp í KR, er á sínu fyrsta tímabili í atvinnumennsku en hann spilaði í bandaríska háskólaboltanum tvö síðustu tímabil.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×