Körfubolti

NBA-meistararnir náðu loksins samningum við J.R.

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
J.R. Smith fagnar titlinum í sumar.
J.R. Smith fagnar titlinum í sumar. Vísir/Getty
Stuðningsmenn NBA-meistara Cleveland Cavaliers geta andað léttar. J.R. Smith verður áfram hjá félaginu. Meistaraliðið snýr því aftur með alla byrjunarliðsmenn sína frá því í fyrra.   

J.R. Smith hefur verið samningslaus í allt sumar og því ekkert verið með Cleveland-liðinu á undirbúningstímabilinu.

J.R. Smith er einn af lykilmönnum úr meistaraliði Cleveland og stórstjarnan LeBron James pressaði á það opinberlega að forráðamenn félagsins næðu samningum við leikmanninn.

Nýr samningur J.R. Smith við Cleveland Cavaliers hljóðar upp á 57 milljónir dollara fyrir fjögur tímabil en hann er öruggur með að fá 45 milljónir dollara fyrir fyrstu þrjú árin.

57 milljónir dollara eru 6,5 milljarðar íslenskra króna sem er ágætis upphæð fyrir að spila körfubolta í liði LeBron James.

J.R. Smith setti nýtt met með því að setja niður 204 þriggja körfur á síðasta tímabili og þá er mjög öflugur varnarmaður.

Cleveland vann sinn fyrsta NBA-titil á síðasta tímabili og jafnframt fyrsta titil borgarinnar frá árinu 1964. J.R. Smith var með 12,4 stig í leik og hitti úr 40 prósent þriggja stiga skota sinna.

J.R. Smith hóf æfingar með Cleveland-liðinu um helgina og spilar væntanlega sinn fyrsta leik á undirbúningstímabilinu á þriðjudaginn á móti Washington. Fyrsti leikur tímabilsins er síðan 25. október á móti New York Knicks.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×