Íslenski boltinn

Pepsi-mörkin: Verður ekki meira áberandi vítaspyrna

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Fylkismenn eru í afar slæmum málum fyrir lokaumferðina í Pepsi-deild karla.

Árbæingar eru með 19 stig í ellefta og næstneðsta sæti deildarinnar og þurfa að vinna KR í lokaumferðinni og treysta á að Víkingur Ó. vinni ekki Stjörnuna á sama tíma.

Staða Fylkis var til umræðu í Pepsi-mörkunum í gærkvöldi.

„Þeir hafa unnið þessa leiki sem þeir hafa þurft að vinna í seinni umferðinni. Þeir unnu Eyjamenn og Ólsara og þetta var væntanlega leikur sem þeir horfðu til að vinna,“ sagði Hjörvar Hafliðason og vísaði til 2-2 jafnteflis Fylkis við Þrótt í gær.

„Það hefur ýmislegt gerst hjá liðum þarna í kring. KR-ingar byrjuðu illa og skiptu um þjálfara. Það er alltaf umdeild aðgerð en það má segja að hún hafi virkað fyrir KR. Það má líka segja að það hafi fært Eyjamönnum ákveðna orku að skipta um þjálfara.“

Sjá einnig: Ragnar Bragi: Ég átti að fá víti

Fylkismenn áttu að fá vítaspyrnu í stöðunni 2-2 í seinni hálfleik þegar Aron Þórður Albertsson togaði í Ragnar Braga Sveinsson þegar sá síðarnefndi var við það að pota boltanum í markið.

„Vilhjálmur Alvar [Þórarinsson] dómari hefur verið frábær að undanförnu og við höfum hrósað honum mikið. En getur aðstoðardómarinn eða einhver ekki hjálpað honum þarna?“ sagði Hjörvar.

Logi Ólafsson var sömuleiðis á því að Vilhjálmur hefði átt að dæma víti á Þrótt.

„Þetta verður ekki meira áberandi. Það tognar á peysunni og allt hvað eina,“ sagði Logi.

Innslagið í heild sinni má sjá í spilaranum hér að ofan.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×