Körfubolti

Harden fær risa launahækkun hjá Houston

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
James Harden
James Harden Vísir/Getty
James Harden fékk sinn skammt af gagnrýni á síðasta tímabili en hann hefur samt sem áður fullt traust frá forráðamönnum Houston Rockets. Harden fékk nefnilega veglega launhækkun í nýjum samningi sínum og Houston Rockets sem nær til ársins 2020.

Harden hefur verið gagnrýndur fyrir að reyna alltof mikið sjálfur og nenna (eða geta ekki) að spila vörn. Leikmenn hafa farið og þjálfarar hafa verið reknir en framtíð Harden í Houston er nú tryggð.

Harden skilar mjög flottri tölfræði í leikjum Houston Rockets en það gengur lítið hjá liðinu sjálfu. Houston fór reyndar í úrslit Vesturdeildarinnar 2015 en vann bara helming leikja sinna á nýloknu tímabili og tapaði 4-1 á móti Golden State Warriors í fyrstu umferð úrslitakeppninnar.

Harden var með samning við Houston til ársins 2018 en nýi samningurinn er framlenging upp á tvö ár auk þess að leikmaðurinn fær risa launahækkun. Harden hefur þó möguleika á því að segja samningnum upp eftir þrjú ár. Adrian Wojnarowski er með þetta á hreinu eins og flest allt annað sem kemur að NBA-deildinni.

Harden átti að fá 34,6 milljónir dollara fyrir næstu tvö tímabil en fær nú næstu því 21 milljón dollara meira fyrir þessi tvö tímabil. 21 milljónir dollara er launahækkun upp á 2,6 milljarða íslenskra króna.

Harden fær alls 118 milljónir dollara fyrir næstu fjögur tímabil eða 14,6 milljarða íslenskra króna. Hann fær 30,4 milljónir dollara fyrir þriðja árið og 32,7 milljónir dollara fyrir fjórða árið. Houston Rockets er því samtals að borga honum 83,5 milljónum dollara meira eftir þennan samning sem er talsverð búbót fyrir Harden-heimilið.

James Harden er enn bara 26 ára gamall og á því sín bestu ár eftir. Hann var með 29,0 stig, 6,1 fráköst og 7,5 stoðsendingar að meðaltali í leik sem eru allt hærri tölur en frá árinu áður (27,4 - 5,7 - 7,0) þegar hann varð annar í kosningu á leikmanni ársins. Harden endaði hinsvegar bara í 9. sæti í kosningunni á síðasta tímabili.

Vísir/Getty
NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×