Íslenski boltinn

Jeppe Hansen genginn í raðir KR

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Jeppe Hansen með KR treyjuna.
Jeppe Hansen með KR treyjuna. mynd/kr
Danski framherjinn Jeppe Hansen er genginn í raðir KR, en fram kemur á heimasíðu vesturbæjarliðsins að hann er búinn að skrifa undir samning úr næstu leiktíð við KR-inga. Jeppe verður fimmti Daninn í herbúðum KR en fyrir eru Morten Beck, Michael Præst, Denis Fazlagic og Morten Beck Andersen.

Jeppe kemur til KR frá Stjörnunni þar sem hann hefur spilað frá því 2014 með stuttu stoppi í Danmörku seinni hluta þess tímabils. Hann skoraði sex mörk í níu leikjum fyrri hluta meistaraárs Stjörnunnar fyrir tveimur árum síðan.

Sjá einnig:Jeppe fer frá Stjörnunni: „Finnst ég eiga skilið að spila meira“

Daninn skoraði átta mörk í 21 leik á síðasta tímabili en hefur aðeins byrjað tvo af tíu deildarleikjum Stjörnunnar í Pepsi-deildinni í ár og ekki spilað nema sjö þeirra.

Jeppe Hansen hefur skorað 16 mörk í 37 leikjum fyrir Stjörnuna í Pepsi-deildinni.vísir/vilhelm
KR vantar mörk

Hann var mjög ósáttur við spiltíma sinn í Garðabænum og sagði í viðtali við Vísi fyrr í vikunni: „Ég er í betra standi núna en nokkru sinni fyrr og mér finnst ég eiga skilið að spila meira. Það hefur komið mér á óvart hvað ég spila lítið og ég fæ varla tækifæri og í raun er þetta bara frekar furðulegt.“

Samkvæmt heimildum Vísis höfðu Víkingur Ólafsvík, ÍBV, Keflavík og fleiri lið áhuga á að fá þennan öfluga framherja í sínar raðir en hann fær nú þá ábyrgð að rífa upp markaskorun í vesturbænum sem hefur verið af skornum skammti.

KR er aðeins búið að skora átta mörk í Pepsi-deildinni í sumar eða fæst allra liða. Samkeppnin um einu framherjastöðuna er mikil hjá KR með þá Hólmbert Aron Friðjónsson og Morten Beck Andersen í hópnum en hvorugur þeirra hefur skorað mark í deild eða bikar í sumar.

Báðir hafa þó komist á blað í forkeppni Evrópudeildarinnar og skoraði Morten Beck Andersen tvö mörk í mögnuðu 3-3 jafntefli KR gegn Grasshoper frá Sviss í gær.

Fyrsti leikur Jeppe Hansen fyrir KR verður væntanlega á sunnudagskvöldið þegar liðið heimsækir Fylki í sex stiga fallbaráttuslag.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×