Íslenski boltinn

Ejub: Skrítið að sami dómari dæmi alltaf hjá okkur

Ingvi Þór Sæmundsson á Ólafsvíkurvelli skrifar
Ejub og félagar töpuðu sínum fyrsta leik á heimavelli frá því í ágúst 2014.
Ejub og félagar töpuðu sínum fyrsta leik á heimavelli frá því í ágúst 2014. vísir/vilhelm
Ejub Purisevic, þjálfari Víkings Ó., var langt frá því að vera sáttur með frammistöðu Ívars Orra Kristjánssonar í 2-3 tapi Ólsara fyrir Stjörnunni í kvöld.

Ívar Orri rak Hrjove Tokic af velli á 42. mínútu í stöðunni 2-1 fyrir að sparka í Baldur Sigurðsson og svo töldu Víkingar sig svikna um vítaspyrnu í fyrri hálfleik. Myndband af rauða spjaldinu má sjá hér að neðan.

„Ég á eftir að sjá hvað hann gerði en mér finnst ótrúlegt og til skammar hvernig þeir fara á hann [Tokic] með olnbogunum, hangandi í honum. Það er aldrei dæmt neitt. Það getur verið að hann hafi gert eitthvað en ég ætla ekki að dæma um það fyrr en ég sé það í sjónvarpinu,“ sagði Ejub sem furðar sig á því að Ívar Orri sé að dæma í fjórða sinn hjá Ólsurum í sumar.

„Það er alltaf sama sagan,“ sagði Ejub um Ívar Orra. „Hann dæmdi miklu minna núna en gegn Víkingi R. Ég er ekki dómari en mér finnst mjög skrítið þegar sami dómari dæmi alltaf hjá okkur. Ég er í alvöru ekki ánægður með hvernig línan var og hvernig var dæmt í fyrri hálfleik.“

Ejub var ánægður með seinni hálfleikinn hjá sínum mönnum sem jöfnuðu metin einum færri áður en Arnar Már Björgvinsson skoraði sigurmark Stjörnunnar.

„Við spiluðum mjög vel í seinni hálfleik en það var erfitt að spila í þeim fyrri. Það var líka eitthvað talað um brot í öðru marki Stjörnunnar, þetta er erfitt. Maður vill treysta dómurunum en stundum klórar maður sér í hausnum yfir dómgæslunni,“ sagði Ejub sem býst við því að Víkingar styrki sig í félagaskiptaglugganum sem opnaði í fyrradag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×