Íslenski boltinn

Fjölnismenn stoltir af sjálfvirka vökvunarkerfi sínu

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Fjölnismenn hafa fært grasvöll sinn í átt af þeim tæknilegustu í Evrópu með því að setja upp sjálfvirk vökvunarkerfi í aðalvöll sinn.

Í síðasta mánuði áttu sér stað miklar framkvæmdir á Extra-vellinum í Grafarvogi en þá nýttu Fjölnismenn mánaðarhlé í leikjum meistaraflokks karla á vellinum og settu upp á þetta nýtísku vökvunarkerfi.

Fjölnir frumsýndi nýja vökvunarkerfið sitt í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport á sunnudaginn en það mátti sjá menn þar á bæ taka upp á því að vökva völlinn þegar færi gafst til.

„Ekki þarf að taka það fram hversu mikið þetta auðveldar starfsmönnum vökvun á aðalvellinum. Við erum stoltir af þessu skrefi sem tekið var og finnst okkur líklegt að fleiri félög geri slíkt hið sama á næstu árum," segir í fréttatilkynningu frá Fjölnismönnum.

Það eina slæma við nýja vökvunarkerfi Fjölnismanna er að það virtist ekki hafa góð áhrif á gengi Fjölnisliðsins á vellinum.

Fjölnir var með fullt hús í fyrstu fjórum heimaleikjum sínum á Fjölnisvellinum en sá síðasti af þeim var 3-1 sigur á KR 15. júní síðastliðinn. Markatala Fjölnis í þessum fjórum deildarleikjum á vellinum var 12-3.

Fjölnismenn steinlágu hinsvegar 3-0 í fyrsta leiknum eftir breytingarnar sem var á móti Breiðabliki á sunnudagskvöldið.  Þeir kenna örugglega ekki sjálfir vökvunarkerfinu um en það vantaði þó greinilega einhvern kraft í þá í þeim leik.  Næsti heimaleikur Fjölnis er síðan á móti Val um næstu helgi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×