Fótbolti

Strákarnir okkar mæta Englandsmeistara á EM

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Christian Fuchs mætir sem Englandsmeistari á EM og spilar á móti Íslandi.
Christian Fuchs mætir sem Englandsmeistari á EM og spilar á móti Íslandi. vísir/getty
Marcel Koller, þjálfari austurríska landsliðsins í fótbolta, tilkynnti í gærkvöldi 23 manna hópinn sem fer á Evrópumótið í fótbolta en þar er Austurríki í riðli með Íslandi, Portúgal og Ungverjalandi.

Fjórir leikmenn úr ensku úrvalsdeildinni eru í hópnum hjá Austurríkismönnum, þar á meðal fyrirliðinn og nýkrýndi Englandsmeistarinn, Christian Fuchs, leikmaður Leicester.

Hinir leikmennirnir sem spila á Englandi eru varnarmennirnir Sebastian Prödl, leikmaður Watford, og Kevin Wimmer, leikmaður Tottenham, auk framherjans Marco Arnatauvic sem spilar með Stoke.

David Alaba, leikmaður Bayern München, er að sjálfsögðu í hópnum en hann hefur verið kjörinn besti fótboltamaður Austurríkis fimm ár í röð. Flestir leikmennirnir í hópnum spila eins og Alaba í þýsku 1. deildinni.

Austurríska liðið var gríðarlega sannfærandi í undankeppninni en það var í riðli með Rússlandi, Svíþjóð, Svartfjallalandi, Liechtenstein og Moldóvu. Austurríki vann níu leiki, gerði eitt jafntefli, tapaði aðeins einu og skoraði 22 mörk og fékk aðeins fimm á sig.

Strákarnir okkar mæta Austurríki í lokaumferð riðlakeppninnar á Stade de France í Saint-Denis 22. júní.

Hópur Austurríkis á EM 2016:

Markverðir: Robert Almer (Austria Vín), Heinz Lindner (Eintracht Frankfurt), Ramazan Ozcan (Ingolstadt)

Varnarmenn: Aleksandar Dragovic (Dinamo Kiev), Christian Fuchs (Leicester City), Gyorgy Garics (Darmstadt), Martin Hinteregger (Borussia Mönchengladbach), Florian Klein (Stuttgart), Sebastian Prödl (Watford), Markus Suttner (Ingolstadt), Kevin Wimmer (Tottenham)

Miðjumenn: David Alaba (Bayern Münich), Marko Arnautovic (Stoke City), Julian Baumgartlinger (Mainz), Martin Harnik (Stuttgart), Stefan Ilsanker (Leipzig), Jakob Jantscher (Luzern), Zlatko Junuzovic (Werder Bremen), Marcel Sabitzer (Leipzig), Alessandro Schopf (Schalke)

Framherjar: Lukas Hinterseer (Ingolstadt), Rubin Okotie (1860 Munich), Marc Janko (Basel)


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×