Fótbolti

Bara einn sen meðal allra sonanna

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Eiður Smári Guðjohnsen á æfingu í Annecy í gær.
Eiður Smári Guðjohnsen á æfingu í Annecy í gær. Vísir/AFP
Eiður Smári Guðjohnsen sker sig úr meðal 23 leikmanna íslenska landsliðsins í fótbolta sem spilar sinn fyrsta leik á Evrópumótinu í Frakklandi eftir aðeins fimm daga.

Við erum ekki að tala um það að Eiður Smári er elstur í hópnum, hefur verið langlengst í landsliðinu, er búinn að spila fyrir flest félög eða að hann hafi skorað flest mörk fyrir íslenska A-landsliðið.

Twitter-síðan Euro 2016 Hub hefur bent á eina staðreynd sem stakk í augu þeirra þegar þeir skoðuðu leikmannalista Íslands á EM 2016.

Eiður Smári Guðjohnsen er nefnilega eini leikmaður íslenska liðsins sem er með eftirnafn og er því ekki son eins og allir hinir heldur Guðjohnsen.

Það er oft broslegt að sjá hvað erlendir blaðamenn taka helst eftir þegar kemur að íslenska landsliðinu í fótbolta og það er alveg ljóst að margir munu velta svona hlutum fyrir sér nú þegar íslenska liðið er á stóra sviðinu í fyrsta sinn.

Eiður Smári Guðjohnsen er 37 ára gamall og skoraði sitt 26. landsliðsmark í sínum 86. landsleik þegar Ísland vann 4-0 sigur á Liechtenstein á Laugardalsvellinum á mánudagskvöldið.

Eiður Smári Guðjohnsen og strákarnir æfðu í Annecy í fyrsta sinn í gær en þar verða höfuðstöðvar íslenska liðsins á meðan mótinu stendur. Fyrsti leikur íslenska liðsins er á þriðjudaginn, 14. júní, en þá mætir Ísland sterku liði Portúgals.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×