Sport

Fjóla Signý ein af framtíðarleiðtogum evrópska frjálsíþrótta

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Fjóla Signý Hannesdóttir.
Fjóla Signý Hannesdóttir. Mynd/FRÍ
Frjálsíþróttakonan Fjóla Signý Hannesdóttir hefur verið valin fulltrúi FRÍ á ráðstefnu ungra leiðtoga Evrópu í frjálsíþróttum sem haldin verður samhliða EM í frjálsum í Amsterdam 5.-10. júlí.

Ráðstefnan er nú haldin af Frjálsíþróttasambandi Evrópu í fimmta sinn á tíu árum. Á þessum tímamótum býður Evrópusambandið einum fulltrúa frá hverju landi til ráðstefnunnar. Ráðstefnan er ætluð áhugasömum ungum leiðtogum hreyfingarinnar og má segja að eitt af markmiðunum sé að kynnast hugmyndum ungra leiðtoga og búa þá undir framtíðar verkefni innan hreyfingarinnar.

Fjóla Signý var valin úr hópi ungra leiðtoga úr íslensku frjálsíþróttahreyfingunni.Hún er reynd keppnismanneskja í frjálsíþróttum en hefur einnig sinnt margvíslegum verkefnum innan hreyfingarinnar.

Fjóla Signý er meðal annars er einn af skipuleggjendum og þjálfurum hins vinsæla frjálsíþróttaskóla UMFÍ á Selfossi. Fjóla Signý hefur komið víða við í margvíslegum félagsstörfum og er af þeim sem til þekkja talin líkleg til að verða í hópi hressustu og kraftmestu fulltrúanna á ráðstefnunni í Hollandi.

Fjóla Signý verður sannarlega ekki eini Íslendingurinn á EM í Amsterdam en þau Ásdís Hjálmsdóttir spjótkastari, Aníta Hinriksdóttir 800m hlaupari, Guðni Valur Guðnason kringlukastari, Arna Stefanía Guðmundsdóttir 400m grindahlaupari og Hafdís Sigurðardóttir langstökkvari munu verða í stóru hlutverki á EM í frjálsíþróttum. Sjaldan hafa eins margir Íslendingar náð lágmarki á EM og þó eru enn nokkrar vikur til stefnu til að ná lágmarki, eða til 26. júní.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×