Íslenski boltinn

Vinni KR-ingar ekki FH í kvöld þá boðar það bara eitt

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Morten Beck Andersen á enn eftir að vinna leik með KR í Pepsi-deildinni.
Morten Beck Andersen á enn eftir að vinna leik með KR í Pepsi-deildinni. Vísir/Ernir
KR-ingar fá Íslandsmeistara FH-inga í heimsókn í Vesturbæinn í kvöld en þá fer fram leikur liðanna í 3. umferð Pepsi-deildar karla í fótbolta. Leikurinn verður í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport.

Það hefur verið ólíkt gengið á liðunum í fyrstu tveimur umferðunum því á meðan FH er með fullt hús og markatöluna 5-1 eftir tvo leiki þá hafa KR-ingar enn ekki náð að fagna sigri.

Síðan að KR vann sinn fyrsta Íslandsmeistaratitil í 31 ár sumarið 1999 þá hefur það aðeins tvisvar sinnum gerst að KR hefur ekki náð að vinna leik í fyrstu þremur umferðunum.

Fyrra skiptið var sumarið 2007 þegar KR fékk aðeins eitt stig í fyrstu þremur umferðunum eftir jafntefli á móti Breiðabliki og svo tap á móti bæði Keflavík og Val.

Seinna skiptið var sumarið 2010 þegar KR fékk tvö stig í fyrstu þremur umferðunum, eftir jafntefli á móti nýliðum Hauka annarsvegar og Stjörnunni hinsvegar og svo tap á móti nýliðum Selfoss.

Þjálfarar KR þessi tvö sumur eiga það sameiginlegt að hafa þurft að taka pokann sinn þetta sumar. Ef marka má þróun mála út í KR þessa tvo áratugi þá boðar það bara eitt tapist leikurinn hjá KR-liðinu í kvöld.

Þegar KR vinnur ekki í þremur fyrstu leikjum sínum þá er kominn nýr þjálfari fyrir Verslunarmannahelgi.

Teiti Þórðarsyni var sagt upp störfum 29. júlí 2007 en hann var þá samningsbundinn félaginu til 2010. KR hafði þá aðeins unnið einn af 11 deildarleikjum sínum og sat í neðsta sæti deildarinnar. Logi Ólafsson tók við liðinu af Teiti.

Loga Ólafssyni var sagt upp störfum sem þjálfara KR 19. júlí 2010 daginn eftir að liðið gerði jafntefli á móti nýliðum Hauka í annað skiptið á tímabilinu. KR var þá með aðeins 3 sigra í 11 leikjum og sat í fjórða neðsta sæti. Rúnar Kristinsson tók við liðinu af Loga.

Bjarni Guðjónsson, þjálfari KR-liðsins, gæti því mögulega þurft að hafa áhyggjur af starfinu takist honum ekki að vinna FH í kvöld.  Sagan segir það að minnsta kosti.

Útsending  Stöð 2 Sport frá KR-vellinum hefst klukkan 19.30 en leikurinn sjálfur hefst klukkan 20.00.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×