Íslenski boltinn

Hermann ætlar að styrkja hópinn með íslenskum leikmanni

Stefán Árni Pálsson skrifar
Hermann var svekktur í leikslok. Fylkir er án stiga eftir þrjá leiki.
Hermann var svekktur í leikslok. Fylkir er án stiga eftir þrjá leiki. vísir/valli
„Þetta var bara sterkt Valslið sem við mættum hér í kvöld en við börðum allan leikinn eins og ljón,“ segir Hermann Hreiðarsson, þjálfari Fylkis, eftir tapið í kvöld.

Fylkir tapaði, 2-0, fyrir Val í þriðju umferð Pepsi-deildar karla og er liðið nú án stiga í deildinni, eina liðið sem hefur ekki náð í stig.

„Það vantar aðeins upp á sendingarnar hjá leikmönnum liðsins en það er stígandi í þessu hjá okkur. Við erum að koma okkur í fína stöður en það vantar upp á þessa úrslitasendingu hjá okkur.“

Hermann segir að liðið sé með gæðin til þess að koma sér í betri færi.

„Það var margt jákvætt hjá okkur í kvöld, en þetta var hörku botnslagur,“ sagði Hermann nokkuð léttur.

„Liðin voru bæði særð þegar þau mættu til leiks en Valsmenn eru bara með hörkulið og þarf allt að ganga upp ef maður ætlar sér að fá eitthvað  á móti svona liði,“ segir Hermann og bætir við að hann hafi ekki áhyggjur af stöðu liðsins.

„Við komum til baka og förum að vinna leiki fyrr en síðar. Það er óþarfi að fara stara á töfluna alveg strax, gerum það í lok móts.“

Hermann er við það að ná í íslenskan leikmann fyrir lok félagaskiptagluggann sem lokar 15. maí.

„Hugsanlega kemur einn íslenskur leikmaður inn í liðið. Ég veit ekkert hvað ég má segja en ég held að þetta sé nokkuð öruggt,“ segir Hermann sem vildi ekki upplýsa hvaða leikmaður væri um að ræða.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×