Íslenski boltinn

Gregg Ryder: „Versta frammistaða Þróttar frá því að ég tók við“

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Gregg Ryder er þjálfari Þróttar.
Gregg Ryder er þjálfari Þróttar. vísir/stefán
Þjálfari Þróttar, Gregg Ryder, var myrkur í máli þegar hann ræddi við blaðamann Vísis um frammistöðu liðs í 6-0 tapi gegn Stjörnunni á Samsung-vellinum í kvöld.

„Þetta er versta frammistaða Þróttar frá því að ég tók við fyrir þremur árum,“ segir Gregg sem tók við liðinu árið 2013 og stýrði því upp í Pepsi-deildina á síðasta ári úr 1. deildinni.

„Ég vil ekki afsaka þessa frammistöðu vegna þess að hún var ekki ásættanleg, hvernig sem maður horfir á þetta,“ segir Gregg sem telur að menn geti ekki notað meiðsli Emils Atlasonar sem afsökun þó að þau hafi haft áhrif en Emil fór út af eftir aðeins 4 mínútna leik og virtist hann vera alvarlega meiddur eftir samstuð við leikmann Stjörnunnar.

„Það hefur áhrif á menn. Mér varð óglatt þegar ég sá þetta og líklega hafði þetta svipuð áhrif á leikmennina. En við getum ekki notað það sem afsökun fyrir leik okkar hér í kvöld,“ segir Gregg sem vonar að tapið í kvöld verði einsdæmi í sumar.

„Við spiluðum vel gegn FH þrátt fyrir tapið, okkur fannst við eiga meira skilið frá þeim leik. Gegn KR spiluðum við mjög vel og áttum mögulega meira en bara stig skilið úr þeim leik. En í dag tökum við stór skref aftur á bak en við munum snúa til baka,“ segir Greg sem bendir á að þrátt fyrir stórt tap þýði það aðeins að liðið fái einu stigi minna úr þessum leik en þeim síðasta.

„Við snúum þessu við. Fyrir níutíu mínútum voru allir mjög jákvæðir. Við munum snúum þessu við,“ segir Gregg að lokum.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×