Íslenski boltinn

Fá Víkingar aftur fjögurra marka skell í Kópavogi? | Sjáðu síðustu tvær markasúpur

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Höskuldur Gunnlaugsson skoraði fallegt mark gegn Víkingi í fyrra.
Höskuldur Gunnlaugsson skoraði fallegt mark gegn Víkingi í fyrra. vísir/ernir
Breiðablik og Víkingur mætast í síðasta leik þriðju umferðar Pepsi-deildar karla í fótbolta klukkan 20.00 á Kópavogsvelli í kvöld. Leikurinn verður í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport HD.

Eftir tvær umferðir eru Blikar með þrjú stig en Víkingar eitt. Breiðablik vann Fylki, 2-1, í síðustu umferð en Víkingur tapaði fyrir Stjörnunni á heimavelli með sömu tölum eftir að vera 1-0 yfir í hálfleik.

Ætli Víkingar að vinna sinn fyrsta sigur í kvöld verða þeir að múra betur fyrir markið en þeir hafa gert í síðustu tveimur heimsóknum sínum á Kópavogsvöllinn. Þeir fengu á sig fjögur mörk í síðustu tveimur útileikjum gegn Breiðablik og því átta mörk í heildina.

Árni Vilhjálmsson skoraði þrjú af tíu mörkum sínum gegn Víkingi á Kópavogsvelli í 20. umferðinni 2014. Víkingar voru sama og hættir á þessum tímapunkti og töpuðu hverjum leiknum á fætur öðrum en komust engu að síður í Evrópukeppni í fyrsta sinn í 23 ár.

Í fyrra mættust liðin í áttundu umferð deildarinnar þar sem Kristinn Jónsson skoraði tvö mörk. Víkingar voru eins og 2014 heillum horfnir á þessum tímapunkti en liðið sneri ekki við gengi sínu í deildinni fyrr en í seinni umferðinni. Tveimur vikum síðar var annar þjálfari liðsins, Ólafur Þórðarson, rekinn.

Hér að neðan má sjá þessar tvær markasúpur Breiðabliks en leikur kvöldsins verður svo gerður upp ásamt öllum hinum leikjum umferðarinnar í Pepsi-mörkunum á Stöð 2 Sport HD.

2014: Breiðablik - Víkingur 4-1 1-0 Árni Vilhjálmsson (9.), 2-0 Árni Vilhjálmsson (19.), 2-1 Ívar Örn Jónsson (78. víti), 3-1 Árni Vilhjálmsson (82.), 4-1 Ellert Hreinsson (90.). 2015: Breiðablik - Víkingur 4-1 1-0 Kristinn Jónsson (15.), 2-0 Kristinn Jónsson (27.), 2-1 Rolf Toft (50.), 3-1 Höskuldur Gunnlaugsson (57.), 4-1 Ellert Hreinsson (86.).



Fleiri fréttir

Sjá meira


×