Íslenski boltinn

Arnar: Ég var tiltölulega þægur í dag

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Arnar Grétarsson var kominn aftur á hliðarlínuna í dag.
Arnar Grétarsson var kominn aftur á hliðarlínuna í dag. vísir/vilhelm
"Maður er alltaf ánægður með þrjú stig en þetta var ekki fallegt og við þurftum að hafa mikið fyrir þessu," sagði Arnar Grétarsson, þjálfari Breiðabliks, við Vísi eftir 1-0 sigur liðsins gegn Víkingi í lokaumferð þriðju umferðar Pepsi-deildar karla í kvöld.

Atli Sigurjónsson skoraði eina mark leiksins á 15. mínútu en Blikar voru svo manni fleiri allan seinni hálfleikinn og rúmlega það eftir að Viktor Bjarki Arnarsson lét reka sig af velli.

"Leikurinn breytist auðvitað þegar Viktor Bjarki fékk seinna gula spjaldið. Ég sá ekki hvað gerðist þar. Hann var búinn að vera í æsing þarna skömmu áður en hvort menn hafi rekist í hvorn annan eða sparkað veit ég ekki. Ég bara hreinlega veit það ekki," sagði Arnar.

"Það er alltaf slæmt þegar lið missa menn af velli. Þetta eyðileggur leikinn og þess vegna sáum við svolítið skrítinn seinni hálfleik. Auðvitað er ég drullusáttur við að vera með þrjú stig. Ég er samt ekki nógu ánægður með spilamennskuna í seinni hálfleik."

Aðspurður hvort Blikar hefðu ekki mátt taka seinni hálfleikinn mun fastari tökum og ganga frá leiknum svaraði Arnar:

"Algjörlega. Ég er hjartanlega sammála því. Víkingarnir bökkuðu niður og gerðu það vel en mér fannst við vera alltof hægir og létum bolta ekki rúlla. Staðan 1-0 er alltaf hættuleg og Víkingarnir fengu eitt færi til að jafna."

"Ég var ósáttur við spilamennskuna í seinni hálfleik. Ég hefði viljað sækja meira á þá og ná öðru marki til að klára leikinn. Það er ýmislegt sem við getum bætt."

"Við erum samt að spila á móti góðu liði með fínasta mannskap. Ég átti alltaf von á erfiðum leik. Það var jafnræði með liðunum í fyrri hálfleik þannig þetta var eins og ég bjóst við," sagði Arnar.

Þjálfari sneri aftur í kvöld úr tveggja leikja banni. Ætlar hann ekki að halda sér frá stúkunni í framtíðinni og vera á hliðarlínunni?

"Ég ætla að reyna það. Ég ætla að reyna að halda mér á mottunni. Ég held ég hafi verið tiltölulega þægur í dag," sagði Arnar Grétarsson léttur að lokum.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×