Íslenski boltinn

Indriði: Á að vera munur á íslenska og norska boltanum

Anton Ingi Leifsson skrifar
Indriði Sigurðsson, fyrirliði og varnarmaður KR, segir að umhverfið á Íslandi sé mun lakari en í Noregi, en Indriði gekk í raðir KR frá Víking frá Stafangri fyrir tímabilið.

Indriði lék í 16 ár sem atvinnumaður í Belgíu og Noregi og segir að það sé viðbrigði að koma heim, til að mynda hafi aðstaðan hjá KR lítið breyst á sextán árum.

„Ég fór út 1999 og þá vorum við að æfa á möl og uppi í reiðhöll. Núna erum við með gervigras sem er ónýtt og höfum verið útum allar trissur að æfa," sagði Indriði við Guðjón Guðmundsson í kvöldfréttum Stöðvar 2.

„Það þarf að bæta úr þessu og verður vonandi gert fljótlega, en því miður verð ég örugglega hættur þegar að gerist."

Varnarmaðurinn öflugi segir að miklar framfarir hafi orðið á Íslandi síðan hann fór, en alltaf megi gera betur.

„Það er munur á Íslandi og Noregi þrátt fyrir að það sé verið að tala um að við séum svo nálægt þeim og við skiljum ekki afhverju leikmenn séu að fara ódýrt út og hingað og þangað."

„Það er munur og það á að vera munur á. Þú ert með atvinnumenn úti og þarna ertu með menn sem eru í þessu daginn og út og daginn inn."

„Aðstaðan hjá mörgum liðum fyrir utan KR eru mjög góðar og mörgu leyti jafn góðar og úti, en það vantar smá upp á. Það er ekki langt. Þetta er alltaf stökk."

Viðtalið í heild sinni má sjá hér að ofan í sjónvarpsglugganum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×