Íslenski boltinn

Örugglega nýtt Íslandsmet hjá Óttari | Myndband

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Ólsarinn Óttar Ásbjörnsson setti nær örugglega nýtt Íslandsmet í sínum fyrsta leik í Pepsi-deild karla í fótbolta á mánudagskvöldið.

Víkingur Ólafsvík vann 3-0 sigur á nágrönnum sínum af Akranesi og nýliðarnir hafa þar með nælt í tíu stig í fyrstu fjórum umferðum Pepsi-deildarinnar.

Óttar Ásbjörnsson sem er aðeins tvítugur kom inná sem varamaður á 89. mínútu leiksins en staðan var þá orðin 3-0 fyrir Ólafsvíkinga. Þetta var fyrsti leikur hans í Pepsi-deildinni á ferlinum.

Óttar Ásbjörnsson kom inná fyrir William Dominguez Da Silva og dómarinn flautaði leikinn á þegar 88:41 eru á klukkunni.

Vallarvörðurinn rétt nær að tilkynna það að þetta sé fyrsti leikur Óttars í Pepsi-deildinni áður en Gunnar Sverrir Gunnarsson dómari flautar leikinn á.

Óttar ætlar ekki að gefa neitt eftir í sínum fyrsta leik og tæklar Skagamanninn Þórð Þorstein Þórðarson eftir aðeins átta sekúndur. Gunnar Sverrir dómari dæmir aukaspyrnuna á 88:51 og lyftir síðan gula spjaldinu þrettán sekúndum eftir að hann flautaði leikinn á eftir skiptinguna.

Óttar Ásbjörnsson var því aðeins búinn að spila í Pepsi-deild karla í þrettán sekúndur þegar hann var kominn í bókina hjá dómaranum.

Skýringin hjá Óttar var einföld: Dýfa hjá ÞÞÞ. Eins og sést á myndbandinu þá var hann bara alltof seinn og því hárrétt ákvörðun hjá Gunnari Sverri að gefa honum spjald.

Það er hægt að sjá þessi fyrstu sport Óttars Ásbjörnssonar í Pepsi-deildinni í spilaranum hér fyrir ofan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×