Íslenski boltinn

61 útlendingur af 22 þjóðerni í liðunum tólf í Pepsi-deildinni

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Daninn Patrick Pedersen var markahæstur í Pepsi-deildinni í fyrra en sextán landar hans spila í deildinni í ár.
Daninn Patrick Pedersen var markahæstur í Pepsi-deildinni í fyrra en sextán landar hans spila í deildinni í ár. Vísir/Vilhelm
Pepsi-deild karla í fótbolta hefst í dag með fjórum leikjum en spilað verður í Laugardalnum, í Vestmannaeyjum, í Kópavogi og á Hlíðarenda. Félögin tólf hafa þegar sett nýtt met í fjölda erlendra leikmanna.

Liðin hafa verið duglegt að styrkja sig í vetur og það vekur mikla athygli hversu margir erlendir leikmenn eru komnir inn í deildina.

Morgunblaðið tók það saman að erlendum leikmönnum í efstu deild karla hefur fjölgað mjög frá síðasta ári. Í fyrra voru 43 erlendir leikmenn í liðunum tólf þegar Íslandsmótið hófst en núna eru þeir 61 talsins og hafa aldrei verið jafn margir. 61 erlendur leikmaður þýðir að það eru yfir fimm útlendingar að meðaltali í hverju liði.

Eyjamenn eru með tíu útlendinga í sínu liði og geta því næstum því stillt upp heilu byrjunarliði af erlendum leikmönnum. Íslandsmeistarar FH eru síðan með næstflesta erlenda leikmenn ásamt nýliðum Víkinga úr Ólafsvík en þau eru með átta útlendinga hvort félag.

Fæstir erlendir leikmenn eru hjá ÍA, Fylki og Stjörnunni eða tveir hjá hverju liði.

Það verður einnig að teljast líklegt að erlendu leikmönnunum munu fjölga þegar líður á sumarið.  

Alls koma þessir erlendir leikmenn frá 22 löndum eða: Danmörku (16), Englandi (10), Króatíu (4), Bosníu (3), Brasilíu (3), Skotlandi (3), Spáni (3), Belgíu (2), El Salvador (2), Færeyjum (2), Serbíu (2), Bandaríkjunum (1), Hollandi (1), Jamaíku (1), Kósóvó (1), Makedóníu (1), Malí (1), Noregi (1), Póllandi (1), Svíþjóð (1), Trínidad og Tóbagó (1) og Úganda (1).

Fyrsti leikur tímabilsins er á milli nýliða Þróttar og Íslandsmeistara FH á Þróttaravelli í Laugardal og hefst hann klukkan 16.00. Þar gætu spilað fimmtán útlendingar en FH er með átta slíka en Þróttur hefur sjö erlenda leikmenn innanborðs.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×