Sport

Gunnar: Ég vil annan bardaga við Maia en er ekki týpan sem skora á menn opinberlega

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Gunnar Nelson átti í miklum erfiðleikum með Demian Maia og tapaði.
Gunnar Nelson átti í miklum erfiðleikum með Demian Maia og tapaði. vísir/getty
Gunnar Nelson berst í fyrsta sinn á nýju ári á sunnudagskvöldið þegar hann mætir Rússanum Albert Tumenov á UFC-bardagakvöldi í Rotterdam. Hann hefur ekki barist síðan hann mætti Demian Maia í desember á síðasta ári.

Brasilíumaðurinn vann Gunnar nokkuð örugglega en hann var með yfirhöndina frá fyrstu mínútu til þeirra síðustu. Gunnar vill endilega fá annað tækifæri gegn Maia og telur að útkoman yrði ekki sú sama.

Sjá einnig:Þjálfari Gunnars: Verðum að vinna þennan bardaga

„Ég myndi telja að annar bardagi á milli okkar myndi ekki enda á sama hátt,“ segir Gunnar í viðtali við írsku íþróttasíðuna Sportsjoe.

„Ég vil klárlega fá annað tækifæri gegn Demian en ég er ekki týpan sem er að skora á menn opinberlega. Ég get látið vita að ég vil annan bardaga gegn honum en það væri ekki rétt að skora á hann svona snemma eftir það sem gerðist í desember. Næst er það bardagi á sunnudaginn og eins og alltaf ætla ég að vinna hann,“ segir Gunnar.

Íslenski bardagakappinn er búinn að tapa tvisvar sinnum í síðustu þremur bardögum en finnur samt ekki fyrir neinni auka pressu á leið inn í búrið á sunnudagskvöldið.

„Ég myndi ekki segja að það væri meiri pressa að vinna því það er alltaf pressa. Hver einasti bardagi er sá mikilvægasti í þínu lífi en við erum klárlega búnir að gera breytingar síðan í desember,“ segir Gunnar.

„Við erum búnir að gera breytingar á æfingum og fundið betri leiðir fyrir mig að hreyfa mig og bæta. Sigur á Tumenov ætti að skjóta mér upp styrkleikalistann og það er það eina sem ég einblíni á núna,“ segir Gunnar Nelson.

Bardagakvöldið með Gunnar Nelson er í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport HD klukkan 18.00 á sunnudaginn. Tryggðu þér áskrift á 365.is.

MMA

Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×