Íslenski boltinn

Ágúst: Væri milljónamæringur ef þetta væri eitthvað lottó

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Ágúst Þór Gylfason valdi erlendu leikmennina vel.
Ágúst Þór Gylfason valdi erlendu leikmennina vel. vísir/ernir
Ágúst Þór Gylfason, þjálfari Fjölnis, var eðlilega kampakátur með 2-0 sigur sinna manna gegn ÍBV í fyrsta leik 2. umferðar Pepsi-deildar karla.

Fjölnir er á toppi deildarinnar með fullt hús eftir tvo sigra en liðið er aðeins búið að fá á sig eitt mark. Leikurinn byrjaði þó ekki fallega í dag.

"Þetta var mikið basl í fyrri hálfleik enda tvö jöfn lið og mikið um stöðubaráttur. Undir lokin sýndum við góð gæði og náðum að klára þetta vel. Ég er gríðarlega ánægður með strákana," sagði Ágúst en vallarskilyrði í dag voru ekki góð.

"Maður getur ekki falið sig á bakvið völlinn en þetta var erfitt og lítið um færi. Við sýndum gæði og stýrðum leiknum til okkar síðustu 20-30 mínúturnar. Mér fannst Eyjamennirnir svolítið þreyttir þannig við gengum á lagið og settum tvö mörk," sagði hann.

Ágúst fékk til sín sex erlenda leikmenn fyrir tímabilið og var orðið útlendingalottó notað um Fjölnisliðið enda óvíst hversu góðu verki þessir menn myndu skila. Þeir eru flestir að spila stórvel og þá sérstaklega Martin Lund Pedersen sem skoraði tvö mörk í dag.

"Ég væri orðinn milljónamæringur ef þetta væri eitthvað lottó hjá okkur. Við leggjum mikla vinnu í leikmennina sem við fáum. Þetta eru vel valdir leikmenn og eru að sýna það í fyrstu tveimur leikjunum að þetta var ekkert lottó," sagði Ágúst.

"Það eru samt bara tveir leikir búnir. Við erum með fullt hús en það er nóg eftir af mótinu. Við þurfum að vinna fleiri leiki til að gera eitthvað í þessu," sagði Ágúst Þór Gylfason.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×