Fótbolti

Gunnleifur: Viðurkenni að þetta kom mér á óvart

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Gunnleifur Gunnleifsson, markvörður Breiðabliks, fer ekki á EM.
Gunnleifur Gunnleifsson, markvörður Breiðabliks, fer ekki á EM. vísir/vilhelm
„Gummi [Guðmundur Hreiðarsson, markvarðaþjálfari landsliðsins] hringdi í mig korteri fyrir blaðamannafundinn og tilkynnti mér að ég færi ekki með,“ segir Gunnleifur Gunnleifsson, markvörður Breiðabliks, í viðtali við Vísi.

Það kom vafalítið mörgum á óvart að sjá að Gunnleifur var ekki valin í EM-hóp Íslands í dag en þessi aldursforseti hópsins undanfarin ár hefur verið fastagestur í landsliðshópnum.

„Ég ætla ekkert að fela það að ég var miður mín að fá þessar fréttir. Þetta var eitthvað sem ég bjóst ekki við. Ég skal viðurkenna það að þetta kom mér á óvart,“ segir Gunnleifur.

„En svona er þetta bara. Ég er ekkert að fara að grenja út af þessu. Ég hef lent í miklu meiri áföllum í lífinu heldur en þessu. Ég verð samt alltaf klár,“ segir hann bara nokkuð léttur miðað við fréttir dagsins.

Gunnleifur var ekki búinn að fá neinar vísbendingar um hvort hann væri í hópnum eða ekki áður en Guðmundur Hreiðarsson hringdi í hann í hádeginu í dag. Hann fékk engar útskýringar beint og var ekki að leitast eftir þeim.

„Ég var ekkert að pumpa hann og vera eitthvað grenjandi í símann rétt fyrir fundinn hjá þeim. Það hefur ekkert upp á sig. Ég er ekkert að yngjast eða að fara að bæta mig sem markvörður en ég hef verið fastamaður í þessum hópi og verið vel metinn innan hans. Ég er í sama standi og undanfarin ár en þeir sjá eitthvað í hinum markvörðunum,“ segir Gunnleifur sem styður auðvitað kollega sína í markinu.

„Allir þessi markverðir eru frambærilegir og ég kem til með að vera í góðu sambandi við Hannes og Ögmund sérstaklega sem eru góðir vinir mínir.“

Aðspurður í gríni með hvaða liði hann haldi á EM í ljósi þessara tíðinda svarar Gunnleifur: „Svíum,“ og skellihlær.

„Auðvitað verð ég fremstur í flokki í íslensku stuðningsmannasveitinni. Það er engin spurning. Þetta eru allt vinir mínir og ég vona að þeim gangi sem allra best,“ segir Gunnleifur Gunnleifsson.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×